Einmanaleiki

02.06.2009

Sælar og takk fyrir góðan vef.

Ég veit ekki alveg hvort þessi fyrirspurn eigi heima hérna en málið er að ég er að eignast mitt annað barn. Þetta er hins vegar fyrsta barn mitt og unnusta míns saman en fyrir á hann tvö börn með fyrrverandi sambýliskonu.  Stuttu eftir að ég uppgötvaði að ég væri ólétt fór ég að finna fyrir miklum einmanaleika og mér finnst sem unnusti minn hafi upplifað allt þetta áður, bæði fengið að vita kynið fyrir fæðingu og ekki, verið á venjulegri fæðingastofu og í Hreiðrinu, á bæði stelpu og strák.  Ég hef ekki rætt þetta við hann og vil ekki gera það.   Ég vil ekki bara hugsa um mig á þessum tímamótum heldur líka taka tillit til hans en þessi tilhugsun um að honum finnist þetta ekkert merkilegt og að hann hafi upplifað þetta allt áður truflar mig mikið.

Hvernig líður feðrum þegar um barnsmóður nr. tvö er að ræða, líður þeim eins og þegar þeir eignast barn með fyrstu barnsmóður sinni? Eru þetta kannski bara hormónarnir að leika sér að mér eða er þetta eðlileg hugsun?

Kær kveðja

 


 

Komdu sæl. 

Það er allur gangur á því hvernig verðandi feðrum líður, líkt og með verðandi mæður er oft spenningurinn aðeins öðruvísi þegar ekki er um fyrsta barn að ræða.  Það sem er þó nauðsynlegt er að tala saman.  Segðu honum hvernig þér líður og hvað þú vilt og spurðu hann hvernig honum líður og hvað hann vill.  Þannig getið þið komið til móts við hvort annað.  Kannski hugsar hann á svipuðun nótum og þú, að þar sem þú talar ekkert um þetta við hann finnist þér þetta ekkert merkilegt.

Það má vissulega segja að hormónar hafi mikil áhrif á andlega líðan á meðgöngu og hugsanir sem þessar eru algengar en oft er hægt að laga ástandið bara með því að setjast niður og tala saman í rólegheitunum.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
2. júní 2009.