Spurt og svarað

15. ágúst 2005

Endurtekin fósturlát

 
Fyrst langar mig að þakka fyrir frábæra síðu.
Við hjónin erum búin að reyna lengi, 3 ár, að verða ólétt, og höfum misst tvisvar, fyrst á 9 viku svo komin rúmar 5 vikur.  Núna er ég orðin ólétt aftur, og get ekki hætt að hafa áhyggjur, er komin tæpar 5 vikur, semsagt nýbúin að komast að þessu.  Eru líkur á að allt fari illa, mér finnst líkurnar ekki vera mér í hag. Er ekki til einhvejar tölfræðiuplýsingar, líkur á öðru fósturláti?
 
...............................................

Sæl vertu og þakka þér fyrirspurnina.
Leitt að heyra hvað þú hefur miklar áhyggjur en miðað við fyrri reynslu er það aðeins eðlilegt - það væri mun undarlegra ef þú hefðir það ekki.  Jú,  það eru til tölfræðiupplýsingar um hversu miklar líkur eru á öðru fósturláti en það er svolítið misjafnt hvernig þær eru settar upp.  Ein heimild sem ég hef undir höndum segir að fyrir par sem hefur aldrei misst fóstur eru 75% líkur á að meðgangan endi með lifandi barni (=alltaf eru 25% líkur á fósturláti) en fyrir þau pör sem hafa misst áður eru líkurnar 52-61%.  Sama heimild minnir á að fyrir konu á þrítugsaldri (tuttugu-og-eitthvað) eru líkurnar á að missa fóstur aðeins um 10% meðan að líkurnar fyrir konur á fertugsaldri fara upp i nær 50%.  Önnur heimild sem ég kíkti í er heldur bjartsýnni og telur konu sem hefur einu sinni misst fóstur eiga sömu líkur og kona sem aldrei hefur misst og þær líkur minnki sáralítið hafi fósturlátin verið tvö.  Frekari upplýsingar um tölfræðina gæti verið að finna í eldri fyrirspurnum hér á vefnum.
Með von um að allt gangi vel í þetta sinn,
bestu kveðjur,
 
Inga Vala Jónsdóttir, l
jósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
6.ágúst, 2005.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.