Er útskröpun nauðsynleg eftir fósturlát við 6 vikur?

04.04.2007

Sælar og takk fyrir frábæran vef.

Þannig er að ég var komin 6 vikur, en í gærmorgun byrjaði að blæða og það fylgdu því miklir verkir og gærkvöldi kom smá „köggull“ í dömubindið. Þá hættu mestu verkirnir en hafa komið og farið vægari túrverkir og stingir eftir það. Þá kemur spurningin mín. Er vanin að fara í útskröpun eða er það bara eftir lengri meðgöngur?

Með fyrirfram þökk og von um svar.


Sæl og blessuð!

Þegar kona er gengin tæpar 6 vikur þá er yfirleitt ekki hægt að greina fóstur með ómskoðun. Fósturpóll eða fóstur greinist ekki fyrr en um 6.viku. Þegar blæðing og blóðlifrar verða er mjög líklegt að kona sé að missa fóstur á náttúrlegan hátt. Blæðing er oft ríkuleg og koma oft blóðlifrar niður sem er eðlilegt og fer það minnkandi eins og við venjulegar tíðarblæðingar. Ekki er þörf á útskröpun. Kona getur tekið þungunarpróf eftir 2 vikur sé það neikvætt, þá er þungun lokið. Eftir næstu tíðablæðingar getur kona orðið ófrísk aftur hafi hún áhuga á því.

Kær kveðja,

Björk Tryggvadóttir,
ljósmóðir, hjúkrunarfræðingur og brjóstagjafaráðgjafi IBCLC,
4. apríl 2007.