Fósturlát

11.03.2005

Ég vil þakka þér kærlega fyrir greinagóð svör. Þetta er mjög þarft og nauðsynlegt fyrir órólegar verðandi mæður. Ég er búin að senda nokkrar fyrirspurnir og alltaf fengið greinargóð svör. Þannig er mál með vexti að ég missti fóstrið í gær. Fékk rosalega mikla verki og blæðingu fór upp á spítala og þá var allt farið. En spurningin er sú er ég er búin að vera með hræðilega túrverki í allan dag hef aldrei fengið svona rosalega verki, hvenær hættir þetta? Tel ég þetta sem blæðingar eða koma þær seinna? Læknirinn sagði að það væri talað um 3 mánuði sem væri æskilegt að bíða en sagði að það ætti að vera í lagi þegar eðlilegar tíðir væru komnar á rétt ról. Sá svo á doktor.is að það væri mælt með 3 mánuðum. Hvort telur þú að sé heppilegra?

Með fyrirfram þökk.

...........................................................................

Sæl vertu og þakka þér fyrirspurnina og hrósið.

Leitt að heyra um fósturlátið þitt.  Ég vona að verkirnir séu batnandi en það er svolítið misjafnt milli kvenna hversu lengi þeir vara en þeir ættu alltaf að vera í betri átt, ef þeir versna eða blæðingarnar aukast er ástæða til að leita læknisaðstoðar.  Það er líka misjafnt hversu fljótt konur hafa egglos aftur og blæðingar eftir það þannig að ekki er hægt að telja fósturlátið eins og blæðingar, þú verður að bíða eftir næstu blæðingum og byrja þá að telja.  Ástæðan fyrir því að læknarnir mæla með 3 mánuðum er að þá er legið að öllum líkindum búið að jafna sig vel og minni líkur eru á öðru fósturláti.  Mér er þó kunnugt um konur sem hafa orðið ófrískar án þess að hafa nokkru sinni fengið blæðingar eftir fósturlát og meðgöngurnar hafa gengið að óskum.  Ég hallast frekar að því að þú reynir að bíða svolítinn tíma með að reyna aftur, fósturlát er ekki aðeins eitthvað sem kroppurinn gengur í gegnum og þarf að taka tillit til, hjá flestum konum vekur fósturlát upp urmul af erfiðum tilfinningum sem maður þarf oft tíma til að átta sig á og glíma við.

Með von um að næst gangi betur.

Bestu kveðjur,

Inga Vala Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
11. mars, 2005.