Spurt og svarað

15. júní 2004

Fósturlát - tvisvar sinnum

Takk fyrir góðan vef!

Þannig er að ég er þrítug og á tvær stúlkur, 4 og 8 ára.  Ég og maðurinn minn höfum verið að reyna að eignast barn undanfarna 8 mánuði en það hefur ekki gengið sem skildi.  Fjórum mánuðum eftir að ég hætti á pillunni varð ég ófrísk en missti við 7 vikur.  Eftir þann missi fór ég á móttökudeildina og þar var mér tjáð að ekkert væri hægt að gera og sónarinn sýndi að fóstrið var farið.  Ég beið samviskusamlega með nýja tilraun þar til eftir 1 blæðingar en varð reyndar ekki aftur ófrísk fyrr en 3 mánuðum seinna, en s.s. nú er ég aftur búin að missa við 6 vikur. Ég er svo vonsvikin af því að læknirinn á móttökudeildinni sagði að það væru ekki miklar líkur á að ég myndi missa næst en ég er núna að spá hvort að líkurnar séu orðnar meiri þar sem ég hef misst 2x.  Ég fór ekki í þetta sinn á móttökudeildina þar sem allt virðist hafa skilað sér og ég veit að ekkert er hægt að gera.  Getur verið að ég sé að missa út af óreglulegum tíðarhring, hann er frá 35-45 daga.  Aukast líkur á að þetta gangi upp hjá okkur ef við bíðum með að reyna aftur.  Ætti ég að leita til kvensjúkdómalæknis, getur verið að e-ð sé að?  Vinkona mín sagði mér reyndar að læknarnir vildu ekkert rannsaka fyrr en kona væri búin að missa 3x.  Einnig fór ég í fóstureyðingu fyrir 5 árum þ.e.a.s. ég treysti mér ekki til að eignast barn vegna aðstæðna en sá svo mikið eftir því að ég ákvað að verða ófrísk aftur.  Getur fóstureyðingin valdið því að ég er að missa fóstur núna?

Með þökk,
Ein vonsvikin.

....................................................................

Sæl vertu og takk fyrir hrósið!

Skiljanlega ertu afar vonsvikin yfir fósturlátunum.  Slíkt getur tekið mikinn toll af manni og hreinlega snúið tilverunni á hvolf, stundum í langan tíma.  Venjulega er talað um að eftir eitt fósturlát séu líkur á öðru fósturláti ekki auknar (mig grunar að það séu skilaboðin sem læknirinn á mótttökudeildinni ætlaði að koma á framfæri, ekki að hann gæti næstum því lofað þér að þú myndir ekki missa aftur). En ég minni á að einnig er almennt talað um að allt að ein af hverjum fimm þungunum misfarist á fyrsta þriðjungi meðgöngu.  Heimildum ber ekki alveg saman um hvort líkurnar aukist eftir tvö fósturlát, þær sem segja að svo sé sýna aðeins mjög væga aukningu. Þannig eru líkurnar þínar tölfræðilega séð ekkert eða örlítið auknar.
Óreglulegur tíðahringur gerir konum yfirleitt heldur erfiðara að verða ófrískar þar sem þær hafa heldur færri egglos en þær sem eru reglulegar en á skrifum þínum virðist svo ekki vera, „meðalparið“ á þrítugsaldri er 5-7 mánuði að verða þunguð.  Ef óreglulegur tíðahringur þinn orsakast af einhverskonar hormónaójafnvægi gæti það hugsanlega haft áhrif á hvort þú haldir fóstrinu eða ekki en það verður kvensjúkdómalæknir að rannsaka.  Það er hins vegar rétt sem vinkona þín sagði að það er mjög ólíklegt að læknar vilji fara af stað með einhverjar slíkar rannsóknir fyrr en eftir þrjú fósturlát í röð.  Þó það hljómi kaldranalega þá eru líkurnar á að verða „óheppin“ tvisvar í röð nokkuð miklar (ef við horfum á líkurnar einn á móti fimm) og meiri líkur en minni að þriðja meðgangan heppnist.  Mörgum líður illa með þá ákvörðun sína að láta eyða fóstri og sektarkenndin er einmitt mjög snögg að láta á sér kræla þegar fósturlát verður þegar þungunin var velkomin.  Það eru afskaplega litlar líkur á að eitthvað hafi gerst í fóstureyðingunni sem hefur áhrif á það í dag að þú missir fóstur.  Og ef að útreikningum mínum skjöplast ekki hefurðu þegar gengið með barn eftir
fóstureyðinguna. Yfirleitt er aðeins mælt með að bíða eftir einum blæðingum þar til „mᓠreyna aftur - líkamlega séð.  En kannski væri gott að gefa sér tíma til að jafna sig betur andlega líka því eins og ég minntist á í upphafi geta endurtekin fósturlát tekið toll af manni.  Ég á ekkert gott svar við af hverju þú hefur nú misst fóstur tvisvar í röð.  Ástæðurnar eru sjaldnast ljósar.  Talið er að fóstur misfarist helst ef um einhverja litningagalla er að ræða og slíkir gallar verða algengari eftir því sem maður eldist (ég er
nú samt alls ekki að halda því fram að þú sért orðin of gömul til að eiga börn!  Náttúran er einfaldlega bara ekki alveg í takti við menningu okkar.) Heimsókn til kvensjúkdómalæknis gæti verið gagnleg þó svo hann myndi ekki gera neinar stórar rannsóknir til að byrja með heldur kannski hjálpað þér með skoðun að sannfærast um að allt sé í góðu lagi og getir haldið áfram að reyna og að þú fáir fræðslu sniðna að þínum þörfum.

Með von um að allt gangi sem best á næstu meðgöngu.

Bestu kveðjur,                                                                              
Inga Vala Jónsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur -  14. júní, 2004.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.