Spurt og svarað

18. mars 2007

Fósturlát og mögulegir litningagallar

Sælar og takk fyrir frábæran vef

Þannig er mál með vexti að fyrir fjórum mánuðum síðan missti ég fóstur við 5. viku. Nú er ég hugsanlega komin 6-8 vikur og fór í snemmsónar í gær til að meta meðgöngulengd. Í sónarnum sást fóstursekkurinn og nestispokinn en ekkert fóstur.Ég á að koma aftur eftir 9 daga til að athuga hvort um dulið fósturlát sé að ræða eða hvort meðgangan sé svona stutt á veg komin. Þó tók ljósmóðirin fram að hið fyrrnefnda væri líklegra og við skyldum búa okkur undir það. Þetta var gífurlegt áfall fyrir mig og kærastann enn það sem ég er aðalega að velta fyrir mér er að hvort þessi  2 mögulegu fósturlát séu afleiðing þess að við skötuhjúin pössum ekki litningalega saman og eru einhverjar leiðir til að rannsaka það. Veit bara ekki hvort ég treysti mér til þess að halda áfram að reyna ef fósturlát eða stórkostlegir gallar eru yfirvofandi. Hef lesið að dulin fósturlát séu afleiðing litningagalla og fósturlát 2 sinnum í röð er ekki góð tölfræði fyrir okkur þar sem við erum bæði ung og hraust. Annað er að ég er undirlögð enn af miklum meðgöngueinkennum sem aðeins fara vaxandi. Er líkaminn að spila með mig? Hversu lengi geta meðgöngueinkenni haldið áfram ef um dulið fósturlát er að ræða?

Með fyrirfram þökk, Tinna.


Sæl og blessuð!

Þegar einungis sést fóstursekkur en ekki fóstur, þrátt fyrir jákvætt þungunarpróf getur verið um að ræða fyrirbæri sem kallast „Blighted Ovum“ eða fósturvisnun. Eins og ljósmóðirin sagði við ykkur þá getur einnig verið möguleiki á eðlilegri þungun sem ekki er komin eins langt og þú taldir. Fósturvisnun þýðir að frjóvgað egg hefur náð að festast við legslímuna og hefur síðan þróast í fylgjuvef og fóstursekk en ekki fóstur. Það er algengt að konur finni fyrir meðgöngueinkennum því þungunarhormónin sem viðhalda fylgjunni eru til staðar í líkamanum og gefa sömu einkenni og þegar um eðlilega þungun er að ræða.  Það er rétt að dulin fósturlát eru oft afleiðing af litningagöllum en 50-60% fósturláta sem verða snemma á meðgöngu eru  vegna litningagalla. Það þarf alls ekki að þýða að ykkar litningar passi ekki saman eða séu eitthvað gallaðir. Frjóvgun er mjög flókið ferli og það þarf lítið úf að bregða til að eitthvað fari úrskeiðis. Það má því segja að fósturlát geti verið leið náttúrunnar til að velja úr fóstur sem ekki eru nógu heilbrigð til að ná að þroskast og dafna eðlilega.

Það er talið að 15% af staðfestum þungunum endi með fósturláti en þau eru algengari hjá konum sem eru ófrískar í fyrsta sinn.

Þú ættir ekki að hafa áhyggjur af framtíðarhorfum ykkar hvað barneignir varðar þrátt fyrir að missa fóstur tvisvar í röð. Ef hins vegar er um að ræða 3 fósturlát eða fleiri í röð þá er mælt með rannsóknum til að kanna mögulegar ástæður. Þó er rétt að taka það fram að orsök finnst aðeins í um 25-50% tilfella og því er orsök ókunn í 50-75%tilfella. Talið er að erfðafræðileg vandamál séu orsökin í um 13% tilfella af síendurteknum fósturlátum.

Kannski er það huggun að vita að yfir 80% kvenna sem missa fóstur munu ganga með og ala lifandi barn í næstu meðgöngu. Ef það hafa hins vegar orðið þrjú fósturlát í röð þá eru líkurnar samt sem áður 75%.

Ég vona að þessar upplýsingar komi að gagni og að ykkur gangi vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðdsóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
18. mars 2007.

 


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.