Spurt og svarað

05. september 2012

Fósturlát, útskaf eða töflur?

Sæl og kærar þakkir fyrir góðan vef.
Í dag fékk ég að vita að fóstrið sem ég geng með var hætt að vaxa og engin hjartsláttur væri til staðar. (komin rúmar 7.vikur). Kvensjúkdómalæknirinn ræddi við mig að annað hvort þyrfti ég að taka töflur til að hreinsa legið eða fara í útskröpun. Ég hef áhyggjur af því að útskröpun geti eitthvað sært legið og ég eigi erfiðara með að vera ólétt aftur? Hvort myndir þú mæla með að konur færi í útskröpun eða prófuðu töflurnar fyrst?
Bk. Júlía
Sæl Júlía
Ég veit að svarið kemur seint en mögulega hjálpar það.
Almennt er útskaf úr legi talin örugg leið fyrir konu til að fjarlægja dáið fóstur og oft nauðsynleg til að forða konunni frá mikilli blæðingu eða sýkingu ef fóstrið skilar sér ekki sjálft. Aðferðin sem notuð er sú sama og þegar þarf að t.d. fjarlægja fasta fylgju og hefur sjaldnast í för með sér ófrjósemi eða leiðir til erfiðleika við þungun. Hinsvegar er áætt að hafa í huga að aðgerðum, sama hversu litlar þær eru, fylgir alltaf einhver áhætta s.s. sýkingarhætta. Þegar ákvörðun um aðgerð er tekin þarf alltaf að vega og meta kosti og galla og fara yfir mögulegar aukaverkanir af aðgerðinni og við hverju megi búast.
Lyfjameðferðin hefur reynst vel og margar konur velja þá leið, aðferðin er talin örugg fyrir konuna. Sumar konur treysta sér hinsvegar ekki til að ganga í gegnum það að sjá fóstrið þegar það skilar sér, vilja ekki upplifa verki og kjósa frekar að fara í aðgerð. Stundum þarf að gera útskaf ef fóstrið og fylgjan skilar sér ekki alveg.
Að verða fyrir þeirri leiðu upplifun að missa fóstur tekur misjafnlega á fólk og það sem konur ákveða að gera í þessum aðstæðum er afar persónubundið. Ég get því ómögulega mælt með annarri aðferðinni umfram hina.
Vona að þetta komi að gagni.Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
5. september 2012
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.