Spurt og svarað

27. ágúst 2014

Hvert á að leita?

Sælar og takk fyrir góðan vef.
Ég er núna ófrísk í fjórða sinn. Á eitt 3 ára barn en hef síðan misst tvisvar í röð með stuttu millibili. Núna er ég komin 10 vikur á leið, er kvíðin, óörugg, þreytt, óglatt og mjög viðkvæm. Hef þó gott stuðningsnet í kringum mig og einn lítinn sólargeisla sem gerir lífið svo miklu betra. Ég fór í snemmsónar þegar ég var komin 7 vikur á leið og sást þá þessi fíni hjartsláttur. Það róaði mig í ca. 2 daga en síðan heltist kvíðinn yfir mig aftur. Þegar ég missti fóstrin (bæði fyrir 9 viku) var ég með mikla kviðverki en engar blæðingar. Í sónar kom síðan í ljós að um dulin fósturlát hefði verið að ræða. Núna síðustu tvo sólarhringa hef ég verið með verki í kviðnum, ekki óbærilega en þó sára. Þar sem ég get ekki annað en verið raunsæ geri ég ráð fyrir hinu versta. Ég hringdi því á heilsugæslustöðina en þar var engin ljósmóðir við (talaði við hjúkrunarfræðing) svo mér var bent á að hringja á göngudeild kvennasviðs. Eins og heilsugæslan benti mér á og stendur á heimasíðu göngudeildar er ekki þörf á tilvísun þangað ef um er að ræða blæðingar eða verki á fyrstu 3 mánuðum meðgöngu. Ég ákvað þó að hringja ekki strax og reyndi fyrst að ná í kvensjúkdómalækninn minn, sem var einnig í fríi. Ég hringdi því á nokkra staði til að athuga hvort hægt væri að fá viðtal eða tíma í snemmsónar, án árangurs. Einnig lagði ég inn skilaboð til heimilislæknis sem hringir eflaust eftir helgi (í dag er föstudagur). Þá hringdi ég á göngudeildina, sagðist nýlega hafa verið hjá þeim vegna missis og útskýrði stöðu mína í dag. Þar fékk ég þau skilaboð frá hjúkrunarfræðingi að það þýddi ekkert að hringja eða koma þangað, allt væri fullbókað og ekki rými til að sinna svona erindum. Svo bætti hún við „þú verður bara að reyna að slaka á“. Kannski hljómaði ég eins og móðursjúk kona en það er erfitt að sitja heima hjá sér með verki og slæma reynslu og bíða. Ég veit að ekki er hægt að grípa inn í ferli náttúrunnar en það ætti að vera svigrúm til að létta konum byrðina. Ég spyr því, hvað er hægt að gera í slíkri stöðu og hvert geta konur leitað í neyðartilvikum fyrstu þrjá mánuðina? Eða er eina ráðið að „slaka á“? Eflaust nær svar ykkar ekki að hjálpa mér eins og er en etv. getur það gagnast öðrum sem upplifa sig einar í heiminum með svipaða reynslu og áhyggjur.
Með kveðju, Sár og áhyggjufull mamma
Sæl vertu.
Mér þykir leitt að heyra af þinni reynslu og eflaust ertu núþegar búin að fara í skoðun. Því miður eru margar konur sem lenda í sömu sporum og það er erfitt að slaka á en oft er það eina ráðið. Leiðin sem þú fórst til að leita þér aðstoðar var alveg rétt og það er rétt hjá þér að það má leita á kvenlækningadeildina án tilvísunar á fyrstu 12 vikum meðgöngu ef um blæðingu eða mikla verki er að ræða. Kvenlækningadeildin er bráðadeild og það er oft mikið að gera, stundum er margra klukkustunda bið, starfsfólkið forgangsraðar eftir alvarleika veikinda og þær veikustu fá forgang. Það er því betra að leita til kvensjúkdómalæknis á stofu ef málið þolir bið. Oftast er hægt að fá tíma hjá kvensjúkdómalæknum með dags fyrirvara ef konunni er sama hvert hún fer. Að margra mati er það galli því þá þarf maður að taka næsta lausa tíma og hefur ekki val um lækni sem er eins og að fara á kvenlækningadeildina því þar hittir maður bara lækninn sem er á vaktinni þann daginn. Yfir sumartímann er alltaf erfiðara að fá tíma en oftast er þá hægt að fá tíma í sömu viku og maður pantar. Kvensjúkdómalæknar eru með stofur um allan bæ, hægt er að finna númerin hjá þeim í gegnum ja.is.
Gangi þér vel.


Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
27. ágúst 2014.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.