Spurt og svarað

27. júlí 2005

Leið eftir fóstureyðingu

Sælar!

Ég er með svo miklar vangaveltur en veit ekki hvort þið ljósmæður hafið mikla reynslu af einhverju svona vandamálum en það er þess virði að reyna. Þannig er mál með vexti að ég varð ólétt fyrir slysni og ég talaði við foreldra mína sem töldu að það væri best fyrir mig að fara í fóstureyðingu vegna ungs aldurs og ég vildi ekkert fara að mótmæla þeim en ég vissi það að hefði ég fengið að ákveða þetta sjálf hefði ég aldrei farið í fóstureyðingu. Skynsemin sagði að ég ætti að fara í fóstureyðingu en hjartað ekki. Ég tók mark á skynsemini og foreldrum mínum og fór, en síðan þá hef ég verið með svo mikið samviskubit því ég veit að ég hefði alveg getað gert þetta og nú vil ég bara fá fóstrið aftur og hef meira að segja hugsa um að verða bara aftur ólétt til þess að reyna gleyma þessu. Alltaf þegar ég sé óléttar konur eða fólk með lítið barn verð ég alltaf voðalega leið, reið og sár við sjálfa mig fyrir að hafa eytt fóstrinu. En ég veit bara ekki hvort ég ætti að fara verða ólétt aftur, en mig hálf langar.

Kveðja, Sorgmædd.

......................................................................

Sæl vertu og þakka þér fyrir fyrirspurnina.

Fóstureyðing er aldrei auðveld ákvörðun og mjög algengt er að konur haldi áfram að velta fyrir sér hvort sú ákvörðun sem þær á endanum tóku hafi verið rétt.  Ef miklar efasemdir eru getur það gjarna kallað á mikla vanlíðan og eftirsjá sem varir jafnvel í langan tíma.  Þú kallar sjálfa þig „Sorgmædd“ sem er einmitt mjög lýsandi fyrir þær tilfinningar sem eru að brjótast um í þér því þær tilheyra í rauninni sorgarferli sem þú ert að ganga í gegnum. Slíkt ferli tekur tíma en því lýkur með sátt, í þínu tilfelli að sættast við sjálfa þig og e.t.v. foreldra þína, að hafa tekið þessa ákvörðun.  Ég tel því að það sé mjög mikilvægt að þú reynir að ná sáttum við þessa ákvörðun þína og það er mjög líklegt að þú myndir njóta góðs af að fá einhverja hjálp við það, t.d. frá foreldrum þínum og/eða sérfræðingum, s.s. sálfræðingi eða félagsráðgjafa.  Þó þú hafir fundið fyrir pressu frá foreldrum þínum að fara í fóstureyðingu þá er einnig mikilvægt að þau viti hvernig þér líður með þetta.  Rétt eins og þau töldu sig vera að gera sitt besta fyrir þig með því að styðja við ákvörðun um fóstureyðingu þá vilja þau örugglega líka að stelpunni þeirra líði vel og geri það sem þau geta til þess.  Ef svo ólíklega vill til að þú fáir ekki þann stuðning sem þú þarfnast frá þeim getur þú leitað t.d. til heimilislæknisins þíns eða til félagsþjónustunnar sem geta beint þér áfram til viðeigandi sérfræðinga. Vinir eru alltaf gulls í gildi þegar manni líður illa, best er að sigta þá út sem hlusta vel og dæma sem minnst.  Þú minnist ekkert á hvort þú átt kærasta en ef hann er inni í myndinni getur hann að sjálfsögðu verið þér góður stuðningur. 

Það er vel skiljanlegt að það hellist yfir þig löngun til að verða ófrísk aftur, að fá eitthvað í staðinn fyrir það sem þú misstir.  En ég bið þig að bíða áður en þú tekur þá ákvörðun.  Eins og ég minntist á áðan er sorgin ferli sem tekur alltaf tíma, mislangan þó.  Meðan þú ert enn stödd í öllum sársaukanum sem sorginni fylgir og þú efast sjálf um („hálf langar“) að verða aftur ólétt sé það rétta, tel ég rétt af þér að bíða.  Barn á skilið að foreldrar þess bjóði það heilshugar velkomið en ekki af hálfum hug, barn á einnig tvo foreldra þannig að þessi ákvörðun liggur ekki eingöngu í þínum höndum. 

Eitt enn um sorgina sem ég tala um eins og ferli: ferlið er ekki endilega bein lína sem hefur upphaf og endi, ferlið er frekar eins og hringur sem maður getur ferðast fram og til baka í.  Það verður alltaf eitthvað sem getur vakið erfiðar tilfinningar sem tengjast þessari reynslu en eftir því sem þú nærð betri sátt nærðu betur að höndla slíkt og tíminn sem þú eyðir í sársaukanum verður styttri og auðveldari.

Með von um að þessi „tilfnningavinna“ hjá þér gangi vel.

Bestu kveðjur,

Inga Vala Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
27. júlí, 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.