Óléttueinkenni og fósturlát

16.09.2009

Sæl
Ég var að missa, komin aðeins 6 vikur. Það byrjaði að blæða skyndilega fersku blóði og blæddi nokkuð mikið, engir kekkir samt eða slíkt. Var verkjalaus að mestu, allavega ekkert sem ég fann verulega fyrir. Hætti svo að blæða um kvöldið sama dag, fyrir utan smá blóðuga útferð.

Fór ekki í neina skoðun til að staðfesta, en ljósan sem ég talaði við var nokkuð sannfærð um að fóstrið hefði verið að fara. Ólettueinkennin eru mjög sterk núna 3 dögum seinna, enda mikið af hormónum ennþá í gangi. Finnst þetta mjög óþæginlegt og þetta einhvern vegin heldur voninni gangandi um að fóstrið hafi í raun ekki farið.

Hvað get ég átt von á að óléttueinkennin haldist lengi? Og er þörf á að láta skoða legið með sónar, hvort allt hafi farið?....þar sem líklegast munum við vilja reyna við nýtt kríli sem fyrst.

Með von um svör.


Sæl

Það getur komið fyrir að blæðing á fyrsta hluta meðgöngu tengist ekki fósturláti þó það sé algengasta skýringin.

Þungunarhormónið er um 2 vikur að hverfa úr líkamanum eftir fósturlát og því geta konur verið með einkenni í einhverja daga og jafnvel vikur eftir að þær missa.

Mér finnst þó rétt að þú látir skoða þig og fáir á hreint hvað gerðist. Það þarf að skoða hvort fóstrið er enn til staðar, hvort það er lifandi og ef ekki hvort þú þurfir á aðgerð að halda.  Þá færðu líka ráðleggingar fyrir framhaldið og næstu þungun.

Gangi þér vel !

Kær kveðja,

Harpa Ósk Valgeirsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
16. september 2009.