Spurt og svarað

07. júní 2005

Rhesus neikvæð móðir

Sæl og þökk fyrir innihaldsríkan og fræðandi vef.

Ég er 36 ára gömul  móðir tveggja barna 16 og 8 ára. Ég missti fóstur í síðustu viku komin 8 vikur, læknirinn kallaði þetta dulið fósturlát og ég fór í aðgerð, eftir aðgerð fékk ég sprautu því ég er Rhesus neikvæð. Spurning mín er því þessi: Hefur rhesus misræmi eitthvað með fósturlát að gera og hvaða tilgangi þjónaði sprautan? Hjúkkan sem sprautaði mig gat litlar sem engar upplýsingar gefið mér um Rhesus misræmi því leita ég til ykkar.

Með fyrirfram þökk.

............................................................................

Sæl og takk fyrir að leita til okkar.

Leitt að heyra um fósturmissi þinn. Eftir því sem ég best veit þá ættu ekki vera tengsl á milli fósturmissis þíns og blóðflokks þíns eða fóstursins.

Það að vera Rhesus neikvæður þýðir að það vantar svokallaðan mótefnisvaka D á rauðu blóðkornin þín en u.þ.b. 15% fólks í Evrópu er Rhesus neikvætt. Rhesus flokkurinn erfist frá móður og föður þannig að ef faðir barnsins er Rhesus jákvæður, þ.e.a.s. hefur mótefnisvaka D á sínum rauðu blóðkornum getur barn Rhesus neikvæðrar móður verið Rhesus jákvætt.

Það er vitað að rauð blóðkorn frá barninu geta fara yfir í blóðrás móður á meðgöngu en ef það gerist er það yfirleitt í svo litlu magni að þau skemmast áður en það verður vandamál. Við vissar aðstæður er hins vegar aukin hætta á að það mikið blóð frá barninu blandist við blóð móður að vissara er að gera varúðarráðstafanir. Varúðarráðstafanirnar sem ég er að tala um er sprautan sem þú fékkst. Um er að ræða lyf sem inniheldur And D (Rh) immúnóglóbúlín og er gefið við eftirfarandi aðstæður:

  • Rhesus neikvæð móðir hefur eignast Rhesus jákvætt barn (blóðsýni er tekið úr naflastreng eftir fæðingu og þannig er fundin út blóðflokkur barnsins). Móðir fær sprautu innan 72 klukkustuna frá fæðingu
  • Fósturlát, fóstureyðing
  • Blæðing á meðgöngu
  • Legvatnsástunga
  • Fylgjusýnataka
  • Vending fósturs
  • Kviðarholsáverkar á meðgöngu

Varúðarráðstafanir þessar eru til þess að fyrirbyggja vandamál á síðari meðgöngum. Ef blóð Rhesus jákvæðs fósturs hefur einhvern tíma náð að blandast blóði Rhesus neikvæðrar móður í það miklum mæli að móðirin fari að mynda mótefni gegn Rhesus jákvæðu blóði þá geta þessi mótefni borist í blóð barna sem móðirin gengur með síðar og eytt mótefnisvökum D hjá börnum sem eru Rhesus jákvæð.  Þetta veldur eyðileggingu á blóðkornum barnanna sem leiðir af sér blóðleysi og fleiri lífshættuleg vandamál. Sprautan sem þú fékkst var sem sagt gefin til þess að eyða mögulegum mótefnum ef blóðblöndum hefur orðið og ef fóstrið var Rhesus jákvætt.

Ég vona að þessar upplýsingar svari spurningum þínum.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
7. júní 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.