Einu sinni gangsett, alltaf gangsett??

14.01.2015

Sæl,
 ég var gangsett með mitt fyrra barn vegna meðgöngulengdar og fæddi það eftir 41 viku og 6 daga meðgöngu. Er nú aftur ólétt og kominn á síðasta mánuð þeirrar meðgöngu. Vildi forvitnast hvort þú þekktir hlutfall þeirra sem eru gangsettar með seinni börn sín aftur vegna meðgöngulengdar miðað við þær sem fara þá sjálfar af stað. Finn lítið um þetta þegar ég leita á veraldarvefnum.

 
 Sæl og blessuð, eðlileg meðgöngulengd er 38-42 vikur þó að vel flestar konur fæði í kring um viku 40. Ég er ekki með hlutfall þeirra sem eru gangsettar vegna meðgöngulengdar oftar en einu sinni. Það virðist samt vera að sumar konur hafi sína eigin meðgöngulengd þ.e. sumar fæða alltaf um 38 vikur meðan aðrar ganga með fram yfir 40 vikur í hvert sinn og allt að fullum 42 vikum. Fæstar fæða á settum degi.  Ég ráðlegg þér miðað við fyrri sögu að reikna með meðgöngu framyfir 41 viku og ef barnið fæðist fyrr er það bara auka bónus, lykilatriðið er að fara ekki að bíða of snemma :-). Gangi þér vel!

Bestu kveðjur
Áslaug Valsdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
14. jan. 2015