Strax aftur.....

16.03.2004

Ég er með eitt kríli sem er næstum þriggja mánaða. Málið er að okkur langar til að koma með eitt annað strax aftur. Ég er ekki byrjuð á blæðingum aftur. Við áttum einnig í smá vandræðum með að verða ólétt. Mig langar til að fá að vita hvort það sé eitthvað sem við getum gert til að auka líkurnar hjá okkur. Ég er með barnið á brjósti og á pela.

.................................................................................................................................................................

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina og til hamingju með barnið. 

Ég veit ekki til þess að neitt geti aukið líkurnar á þungun nema notkun frjósemislyfja eins og fram kemur í öðru svari hér á síðunni en þó er gott að huga að mataræði sínu, borða hollan mat og hugsanlega taka vítamín, sérstaklega fólínsýru þegar konur eru að reyna að verða barnshafandi. 

Brjóstagjöf hefur áhrif á að blæðingar hefjist eftir barnsburð. Þrátt fyrir að þú sért ekki farin að hafa blæðingar eftir barnsburðinn þá getur orðið egglos. Meiri líkur eru á því að egglos verði (og blæðingar hefjist) sé barnið ekki eingöngu á brjósti. Egglos stjórnast meðal annars af kvenhormónunum LH og FSH. Það eru nokkrar aðferðir til þess að fylgjast með því hvort og hvenær egglos á sér stað. Ein af aðferðunum er að mæla líkamshita þinn. Það er mikilvægt að líkamshitinn sé mældur á hverjum morgni og hann skráður. Snemma í tíðarhring er líkamshitinn nálægt 36,5°c að morgni mælt í endaþarm. Þegar nær dregur egglosi hækkar morgunhitinn dag frá degi og er yfir 37°c við egglosið. Rætt er um bók sem segir frá hitastigsaðferðinni á heimasíðunni www.tilvera.is .
Meðal tíðarhringur er 28 dagar. Fyrsti dagur tíðahrings er fyrsti dagur blæðinga. Egglos er að jafnaði 12-16 dögum fyrir fyrsta dag nýs tíðahrings. Önnur aðferð til þess að finna út egglos er að nota mæla sem fást í apótekum. Þetta eru strimlar sem nema hækkað LH (gulbúsörvandi hormón) í þvagi. En það hormón hækkar  rétt fyrir egglos. Þegar nær dregur egglosi eykst slímmyndun frá leggöngum og slímið verður þynnra.

Gangi þér vel,

Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur 16.03.2004.