Spurt og svarað

10. febrúar 2006

Útskröpun eftir fósturlát

Sælar og takk fyrir góðan vef
Þannig er að ég fór í 12 vikna sónar fyrir stuttu (mín fyrsta meðganga) og komst af því að fóstrið væri látið og um dulið fósturlát væri að ræða þar sem það dó 3 vikum fyrr.  Ég fór síðan í útskröpun og eftir hana var mér sagt að legið á mér væri slappt og ég hafi fengið sprautu við því, vildi fá að vita hvað það merkir er þetta eitthvað sem maður þarf að hafa áhyggjur af eða eitthvað sem gæti haft áhrif á meðgöngu/fósturlát upp á framtíðina að gera hvort að þetta auki líkurnar á fósturláti.
Annað sem mig langar til að spyrja um  er afhverju líkaminn skilar ekki frá sér látnu fóstri fyrst að það er svo langt síðan það dó?  Þetta er svo svekkjandi þar sem maður er farin að gera sér vonir um að allt sé í lagi en fær engin merki um að ekki sé allt með felldu.  Mér var einnig sagt að það væru ekki meiri líkur að ég missi aftur fóstur.  En á næstu meðgöngu, getur maður látið fylgjast betur með sér ef þetta skyldi gerast aftur eða þarf ég bara að sækjast sérstaklega eftir því ?
Sagt er líka að gott sé að bíða 2-3 blæðingar upp á næstu þungun að gera en skiptir það einhverju máli ef maður verður óléttur fyrr var frekar áhyggjufull á þessari stuttu meðgöngu og verð því örugglega mun verri á næstu meðgöngum, er mikill kvíði vont fyrir fóstur?
Með von um svör
kveðja Eir
 
...........................................................................
 
Komdu sæl Eir
 
Leiðinlegt að heyra um fósturlátið.  Slappt leg eftir útskröpun þýðir að það hefur kannski blætt meira en annars og þess vegna hefur þér verið gefin þessi sprauta.  Það hefur ekkert áhrif á framtíðina nema hvað ég myndi nefna það við ljósmóðurina mína næst þegar þú verður ófrísk eða þegar þú byrjar í fæðingu og þá verður fylgst sérstaklega vel með leginu þínu eftir fæðinguna með tilliti til blæðingar.  Þsð er samt líklegast að þetta hafi bara verið eitthvað tilfallandi. 
 
Líkami þinn hefði að öllum líkindum skilað þessu sjálfur ef hann hefði fengið nægan tíma til þess.  Það getur tekið margar vikur og jafnvel mánuði að skila öllu út og fyrir flestar er það óhugsandi að bíða allan þann tíma eftir að vitneskjan um að fóstrið sé dáið er komin fram.  Það eykur líka líkurnar á sýkingu að vera með fóstrið inn í sér í langan tíma og því er notast við töflur eða útskröpun til að ljúka ferlinu.  Auðvitað er þetta svekkjandi og allskonar tilfinningar komnar af stað og plön fyrir framtíðina.  Margar konur finna þó þegar meðgöngueinkenni hverfa og þá er það vísbending um að ekki sé allt í lagi.  En hugurinn er líka magnaður og maður leyfir sér ekki alltaf að hugsa þessa hugsun til enda og heldur að allt sé í lagi þrátt fyrir að einkennin séu farin. 
 
Á næstu meðgöngu getur þú pantað þér tíma hjá kvensjúkdómalækni og beðið hann að sónarskoða þig til að sjá hjartsláttinn eftir 7. viku meðgöngunnar en ljósmóðir heyrir venjulega ekki hjartslátt fyrr en um 12. viku.  Það er viðbúið að fyrstu vikurnar verði svolítið erfiðar en þú kemst í gegnum það.  Það er um að gera að hugsa jákvætt og eins og búið er að segja þér eru mestar líkur á að næsta meðganga gangi að óskum.
 
Talað er um tvo til þrjá mánuði til að gefa líkamanum og ekki síður sálinni smá tíma til að jafna sig en það er samt í lagi að verða ólétt strax aftur ef þú treystir þér til þess. 
 
Gangi þér vel og bestu kveðjur.
 
Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
10.02.2006.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.