Spurt og svarað

22. júní 2005

Vínberjavöxtur

Sæl! Mig langar svo að vita hvað þú getur sagt mér um vínberjavöxt, af hverju hann verður og hversu lengi þarf maður eða er ráðlagt að bíða með þungun í kjölfarið?

Með fyrirfram þökk

.........................................................

Sæl og þakka þér fyrir fyrirspurnina. 

Þegar þú talar um vínberjavöxt geri ég ráð fyrir að þú eigir við svokallaða móluþungun. Þetta er yfirleitt kallað blöðrufóstur á íslensku en nafngift þín lýsir þessu reyndar vel. Móluþungun eða blöðrufóstur verður í einni af hverjum 1200 þungunum. Það eru 2 flokkanir: Complete mole:  þá eru 46 litningar frá föður eingöngu, hér er ekkert fóstur til staðar.  Síðan er partial mole:  þá eru 69 litningar, tvö sett frá föður og eitt frá móður, hér getur fóstur verið til staðar en það er ekki lífvænlegt. 
Meðgöngueinkennin við fullkomna blöðruþungun eru oft mjög ýkt.  Í um 95% tilvika er einhver blæðing frá leggöngum, legið virðist vera stærra en meðgöngulengdin segir til um í 50% tilvika, stækkun á eggjastokkum verður í 50% tilvika og geta valdið slæmum kviðverkjum, slæm ógleði og uppköst (hyperemesis) í 25% tilvika, útferð með vínberjalíkum blöðrum verður í um 50% tilvika.  Einkenni meðgöngueitrunar, eins og hækkaður blóðþrýstingur og aukinn próteinútskilnaður, koma fram í 30% tilvika.

Meðferðin er að fjarlægja blöðrufóstrið úr leginu og síðan er konunni fylgt eftir með því að mæla ß-HCG hormón í blóðinu.  Eftirlitið er í að minnsta kosti eitt ár og er ekki ráðlagt að konan verði þunguð meðan á eftirliti stendur. 
Vonandi svarar þetta spurningu þinni!  Gangi þér vel.

Sumarkveðja,

Guðrún Sigríður Ólafsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
21. júní 2005.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.