Þrisvar fósturlát

19.01.2006

Ég er 29 ára og barnlaus. Fyrir nokkrum dögum síðan var ég að missa fóstur í þriðja sinn, komin rétt um 4 vikur (var nýbúin að fá þungunina staðfesta með
heimaprófi). Í hin skiptin (sumar 2004 og byrjun árs 2005), missti ég þegar ég var komin um það bil 7 vikur og svo 12 vikur.  Ég er satt að segja orðin ansi hrædd um að ég geti kannski ekki gengið í gegnum meðgöngu einhverra hluta  vegna. Er búin að vera að reyna að kryfja hegðun mína, þ.e. hvort ég geti fundið eitthvað sem gæti hafa orsakað fósturlátin. Er einhver möguleiki að það sé tenging á milli kynlífs (fullnægingar) og fósturláts? Í tveimur af þessum þremur skiptum (12 v og 4 v) var ég og kærasti minn búin að lifa kynlífi ca tveimur dögum áður en ég missti fóstrið.

Með kærri kveðju,
ein áhyggjufull

..........................................

Komdu sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Ég vil byrja á að votta þér samúð mína, það er erfitt að ganga í gegnum þetta einu sinni hvað þá aftur og aftur.  Oftast finnst engin ástæða fyrir fósturlátum og það er alls engin ástæða fyrir þig að halda að þú hafir orsakað fósturlátin með því að lifa kynlífi.  Í rauninni er það talið innan eðlilegra marka að missa þrisvar sinnum.  Eftir það er oft farið að rannsaka konuna til að vita hvort einhver skýring finnist á þessu.  Ég hvet þig því til þess að panta þér tíma hjá kvensjúkdómalækni og ræða þessi mál við hann.

Gangi þér vel

Rannveig B. Ragnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir. 19.01.2006.