Þungunarpróf eftir fósturlát

29.09.2008

Ég var að velta einu fyrir mér. Nú varð ég ólétt mjög stuttu eftir að ég átti mitt fyrsta barn. Allt virtist ganga vel og ég fór í snemmsónar þar sem þungunin var staðfest. Læknirinn taldi mig samt vera komna mjög stutt á leið þar sem ekkert sást nema fóstursekkurinn. Sagði mig vera komna ca 5 vikur og bað mig um að koma aftur í skoðun 3 vikum seinna. Sem ég gerði en þá kom í ljós að engar breytingar hefðu átt sér stað. Sekkurinn var tómur þannig að fóstrið hafði aldrei náð að myndast og ég var send í aðgerð daginn eftir til að fjarlægja þetta. Nú eru 11 dagar síðan fóstursekkurinn var fjarlægður en meðgöngueinkenni eru enn til staðar (samt ekki eins mikil) og ég tók að gamni mínu þungunarpróf í gær sem var mér til mikillar furðu mjög svo jákvætt.  Ég stórlega efast um að ég sé ólétt..  En hvað getur þungunarprófið sýnt jákvæða niðurstöðu í langan tíma? Getur verið að  líkaminn sé ekki að fatta þetta? Er mér óhætt að byrja á pillunni?Sæl!

Þungunarprófið ætti ekki að sýna jákvæða niðurstöðu svo löngu eftir aðgerðina. 
Ég mæli með að þú gerir aftur þungunarpróf og ef það er enn jákvætt að fá skoðun hjá lækninum þínum.  Ekki byrja á pillunni fyrr en þú hefur fengið svar við því hvort þú sért þunguð.

Með kveðju,


Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir,

ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
24. September 2008.