Áhættumeðganga eftir vaxtaskerðingu/gangsetningu?

27.12.2012

Sæl.
Ég átti barn á LSH fyrr á þessu ári. Stúlkan fæddist eftir tæpa 38 vikna meðgöngu og var léttburi og þurfti að vera á vökudeild í rúma viku. Vaxtarskerðingin kom ekki í ljós fyrr en rúmri viku áður en barnið fæddist. Ég var undir eftirliti upp á LSH þá vikuna og fór svo í gangsetningu enda talið betra fyrir barnið að fæðast fyrr en seinna. Það er ekki almennilega vitað af hverju stelpan var svona lítil en hugsanlega er það út af hækkuðum blóðþrýstingi hjá mér á meðgöngunni. En nú langar mig að forvitnast. Þegar ég verð ólétt næst, get ég þá verið í hefðbundnu mæðraeftirliti á heilsugæslunni minni eða þarf ég að vera í strangara eftirliti upp á LSH?Sæl
Þar sem ekki er almennilega vitað hversvegna dóttir þín hætti að vaxa eðlilega undir lok meðgöngunnar myndir þú byrja í mæðravernd í heilsugæslu og færast svo yfir í áhættumæðravernd LSH ef sama vandamál kemur upp aftur, það er ef blóðþrýstingurinn hækkar eða ef barnið dregur úr vexti. Þegar þú mætir í fyrsta viðtal hjá ljósmóður fær hún hjá þér nákvæma heilsufarssögu og hvernig meðgöngur hafa gengið áður. Hún mun þá meta hvernig mæðraverndinni hjá þér verður háttað og ef til vill fá þig oftar í skoðun á seinni hluta meðgöngunnar ef þarf.

Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
27. desember 2012