Annað barn!

16.06.2004

Ég er 38 ára gömul og átti barn með keisaraskurði fyrir 4 mánuðum síðan. Okkur hjónin langar til að eignast annað barn fljótlega og ég var að velta fyrir mér hversu æskilegt sé að það líði langur tími milli barna þegar það fyrra var tekið með keisara?

.....................................

Komdu sæl og þakka þér fyrir fyrirspurnina!

Eftir að hafa átt barn með keisaraskurði telst þú vera í áhættumeðgöngu í næstu meðgöngu. Ég hef skoðað ýmsar heimildir og virðast margir þættir geta komið inní þegar spáð er í æskilegan tíma milli meðgangna. Þetta er því mjög einstaklingsbundið. Ég myndi telja gott að hálft til eitt ár væri æskilegur tími þar til þú yrðir þunguð á ný miðað við að þú ert 38 ára og ekki með neina aðra áhættuþætti.

En þar sem þú telst til „áhættu“ konu þá mæli ég með að þú hafir samband við fæðingalækni sem gæti ráðlagt þér betur á persónulegri hátt.

Gangi þér vel, með kveðju, 

Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur - 16. júní 2004.