Að reyna

29.01.2007

Sælar,  ég talaði hjá lækni um daginn þar sem við höfum reynt að eignast barn í um  ár.  Ég er orðin 36 ára og á fyrir börn sem komu öll fyrir þrítugt.  Min reynsla er að ég varð ófrísk strax í fyrsta mánuði, reyndar er ég nú gift aftur og maðurinn minn er ekki barnsfaðir barnanna.

Ég ræddi við læknirinn minn um að ég fái mikla verki á meðan egglos á sér stað. Verkirnir standa yfir í nokkra daga (nokkrir verkir á dag í ca 2-5 daga) en þegar kemur að blæðingum sem eru reglulegar fæ ég enga túrverki.  Læknirinn vildi meina að líklega fái ég ekkert egglos.  Er það möguleiki?  Hvað annað gæti verið að?  'Ég er með frekar miklar blæðingar.  Var fyrir einu og hálfu ári á hormónalykkjunni í 4,5 ár.  Hafði þá engar blæðingar á þeim tíma.  Hefur eitthvað ruglast eftir þessa getnaðarvörn?

Vonast eftir svari fljótlega.

Með fyrirfram þökk og kveðjur
Guðrún


Komdu sæl Guðrún

Því miður get ég ekki sagt þér hvað er að, það krefst rannsókna og ýtarlegri upplýsinga.  Hinsvegar get ég sagt þér að streita (yfir því að verða ekki ólétt) getur haft neikvæð áhrif á líkurnar á að verða ófrísk.  Það er alveg möguleiki að egglos verði ekki hjá þér, þrátt fyrir mikla verki.  Konur verða minna frjóar með árunum og þó þér hafi gengið vel að verða ólétt er það ekki ávísun á að þannig gangi það alltaf fyrir sig.  Fólk passar líka misvel saman að þessu leiti, þannig að nýr maki er stór breyta í þessu dæmi.  Nú og svo getur eitthvað verið að hjá manninum þínum sem þarf kannski að athuga.  Það getur líka tekið líkamann langan tíma að jafna sig eftir notkun hormónagetnaðarvarna þannig að það er ekki hægt að útiloka strax að lykkjan hafi þessi áhrif.  Andlegt álag hefur áhrif á kynlífið og þar með hversu líklegt er að konan verði ólétt. 

Ég ráðlegg þér að tala um þetta við lækninn þinn, kannski vill hann senda þig/ykkur í rannsóknir til að fá úr því skorið hvort eitthvað sé að.  Það er samt talið alveg eðlilegt að fólk sé uppundir 1 1/2 ár að verða barnshafandi.

Gangi þér vel.

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
29.01.2007.