Spurt og svarað

22. ágúst 2009

Að reyna - saga um móðurlífsbólgur

Sælar!

Ég og maðurinn minn erum að reyna að eignast annað barn. Við eigum eitt 4 ára. Við erum bæði 29 og í góðu formi og það gekk vel að verða ólett með fyrsta barn. Þegar barnið var innan við eins árs fékk ég gríðarlega miklar móðurlífsbólgur og var á spítala í nokkra daga. Mér var tjáð að í kjölfarið á slíkum bólgum gæti verið aukin hætta á ófrjósemi. Ég hef ekki notað neinar hormóna getnaðarvarnir að ráði (prófaði hringinn tvisvar eða þrisvar) síðan fyrir fyrsta barn. Við höfum verið að reyna aktívt í nokkra mánuði. Tíðarhringurinn hjá mér hefur verið mjög óreglulegur í u.þ.b. eitt ár. Allt frá 25 dögum og upp í 34. Eins á ég erfitt með að vita hvenær í raun blæðingarnar hefjast þar sem að stundum kemur bara smá í 3-4 daga og þá fyrst byrja þær almennilega með miklum verkjum. Þess vegna sé ég ekki að egglosunarpróf geti hjálpað okkur mjög mikið þar sem ég veit ekki hvort ég eigi að reikna tíðarhringinn frá fyrsta degi eða frá 3.-4. degi þegar blæðingarnar byrja að fullu. Ég veit að við erum ekki búin að reyna aktívt mjög lengi en þar sem að þessar móðurlífsbólgur komu upp þá vil ég ekki bíða of lengi með að láta athuga málið nánar.

Spurningin er aðallega þessi: Við hvern talar maður og hvernig er hægt að athuga hvort bólgurnar gerðu skaða? Mig langar ekki mikið að ræða þetta við heimilislækninn minn.

Kveðja.

Sæl og blessuð!

Varðandi tíðahringinn þinn þá er sennilega rétt að reikna fyrsta dag blæðinga þegar verkir hefjast og blæðingar byrja að fullu.

Það er sjálfsagt að leita ráða hjá lækni þó að þið hafið ekki verið að reyna mjög lengi þar sem þú fékkst á sínum tíma upplýsingar um að aukin hætta væri á ófrjósemi. Þú getur annað hvort leitað til kvensjúkdómalæknis eða beint til læknanna á Livio Reykjavík sem sérhæfa sig á þessu sviði.

Gangi ykkur vel.

Kær kveðja, Anna Sigríður Vernharðsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
Yfirfarið í janúar 2020

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.