Á leið í gönguferð - komin 6 vikur

06.08.2008

Sælar!

Ég er á leiðinni í 4 daga gönguferð. Það eru aðeins 6 vikur liðnar frá síðustu blæðingum svo ég er bara rétt að byrja. Þetta er mitt fyrsta barn. Maður hefur alltaf heyrt að fyrstu 3 mánuðirnir séu viðkvæmir fyrir fóstur og því var ég að hugsa hvort það sé ekki allt í lagi að fara í svona langa göngu svo stutt komin? Ég trúi því sjálf að það sé í góðu lagi, en langaði samt að fá faglegt álit. En þegar lengra er komið? T.d. á 3-5 mánuði? Er það ekki bara svolítið eins og maður treystir sér til?

Frábær vefur! Takk fyrir mig.


 
Sæl og blessuð!

Jú - alveg rétt hjá þér að fyrstu mánuðirnir eru viðkvæmir en gönguferð úti í náttúrunni ætti alls ekki að hafa slæm áhrif. Þú gerir bara það sem þú treystir þér til og nú er mjög mikilvægt að hlusta á líkamann. Þú þarft kannski að drekka og borða oftar svo það er um að gera að hafa vatn og orkuríkt snakk við höndina sem þú getur gripið í þegar líkaminn kallar eftir því.

Göngukveðjur,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
6. ágúst 2008.