Spurt og svarað

07. apríl 2005

Að reyna aftur eftir fósturlát

Þannig er mál með vexti að ég missti fóstur fyrir nokkrum vikum u.þ.b. við 6. viku. Þetta var í annað skipti sem ég missti fóstur þannig að ég er verulega kvíðin. Eftir fyrra skiptið komu næstu blæðingar á eftir á eðlilegum tíma og mér fannst sá tíðarhringur alveg eðlilegur. Ég fór til læknis sem hvatti okkur að halda bara áfram að reyna strax sem við gerðum. Núna er ég komin a.m.k. viku framyfir og ekkert bólar á blæðingum. Ég ákvað að taka próf á 35. degi tíðahrings (venjulega er minn tíðahringur 30-32 dagar) en fékk neikvætt. Núna er 39. dagur og ég er ekki enn byrjuð. Ég er búin að vera með brjóstaspennu í alveg rúma viku og túrverki líka þannig að ég held alltaf að ég sé að byrja, þar sem ég fékk ekki jákvætt úr prófinu. Í hin skiptin tvö var ég reyndar með alveg sömu einkenni, það er brjóstaspennu og túrverki í alveg rúma viku áður en ég fékk jákvætt, en í bæði skiptin fékk ég jákvætt á 35. degi tíðahrings. Getur verið að það sé svona mikið hormónaójafnvægi í gangi, mér finnst ekki alveg eðlilegt að vera með þessi óþægindi í svona langan tíma eða getur verið að ég sé ófrísk aftur en hef bara tekið próf of snemma?

Ein alveg ringluð.

Sæl vertu og þakka þér fyrirspurnina!

Mér finnst líklegast að egglosið hafi verið heldur seinna í þessum tíðahring en áður og að þú hafir e.t.v. gert þungunarprófið of snemma, ég myndi ráðleggja þér að taka þungunarpróf aftur eftir nokkra daga. Mér finnst of snemmt að fullyrða um hvort um eitthvað meiriháttar hormónaójafnvægi er að ræða, líkaminn þarft oft svolítinn tíma til að stilla líffræðiklukkur sínar af eftir atburði eins og fósturlát.

Það er mjög eðlilegt að þú sért kvíðin núna því það er oft mjög erfið reynsla að missa fóstur. Ég vona að þú getir dregið fram allar þínar jákvæðu tilfinningar og bjartsýni og haldir ótrauð áfram, tölfræðilega séð áttu enn mjög góða möguleika á eðlilegri meðgöngu, þrátt fyrir tvö fósturlát.

Gangi þér allt í haginn.

Bestu kveðjur, Inga Vala Jónsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
Yfirfarið í desember 2019

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.