Spurt og svarað

29. janúar 2007

Að reyna eftir missi fósturs

Ég missti fóstur núna fyrr í mánuðinum ( á 12 viku)og er enn með aðeins af þungunareinkennum,sérstaklega þó eymsli í brjóstunum.  Ég er að reyna núna að vera ófrísk aftur og gæti farið að taka þungunarpróf eftir c.a 12 daga.  Ég hef þó engar tíðablæðingar haft, aðeins hreinsunina eftir útskrapið.  Spurningin er, ef ég fengi nú jákvætt úr prófinu getur það þá verið út af hormónunum sem eru enn í líkamanum eftir hina þungunina?

Kvennsjúkdómalæknirinn minn sagði að ef ég treysti mér til þá væri ekkert að því að byrja að reyna svona snemma.  Enda á ég eitt barn og það var getið 2 vikum eftir utanlegsfóstursaðgerð fyrir nokkrum árum og sú meðganga gekk mjög vel.  Er það rétt að konur gætu jafnvel verið frjórri svona strax eftir fósturlát því þá eru hormónarnir enn á fullu?

Með fyrirfam þökk um svar.


Komdu sæl, ég samhryggist þér með missinn.

Það er ósennilegt að jákvætt þungunarpróf núna stafaði af horómum síðan í síðustu meðgöngu.  Þegar meðganga endar lækkar magn HCG- hormónsins mjög hratt, en það er það hormón sem mælist í þungunarprófum.  Það eykst svo aftur við næstu meðgöngu en styrkur þess þarf að vera ákveðið mikill til að það mælist og þess vegna er ekki gott að gera þungunarpróf of snemma til að fá ekki vitlausa niðurstöðu (falskt neikvætt próf).  Venjulega hætta þungunareinkenni líka mjög fljótlega eftir að þungun hættir. 

Konur eru frjórri fyrst eftir fæðingu barns og rökrétt að halda að það eigi líka við eftir að hafa verið ólétt þó þú hafir misst. 

Gangi þér vel.

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
29.01.2007.
 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.