Að vinna í sundlaug

27.06.2012

Góðan dag!

Ég er að vinna í sundlaug og langar að verða ófrísk af barni nr.2. Mín spurning er hvort það sé eitthvað sem ég ætti að spá í vegna vinnunnar. Er einhver hætta eða eitthvað sem gæti skaðað fóstrið/barnið í þessari vinnu? Er ekkert hættulegt fyrir fóstrið að móðirin andi að sér sundlaugarvatnsgufu allan daginn?


Sæl!


Samkvæmt upplýsingum frá vinnueftirlitinu eru notaðar klórafleiður í sundlaugum og því ekki um klórgas að ræða í sundlaugarvatnsgufu. Ekki hefur verið sýnt fram á skaða á fóstri eða að sundlaugarvatnsgufur hafi neikvæð áhrif á meðgönguna en þekkt er að klórgas geti valdið skaða á lungum. Rannsóknir hafa samt sem áður bent til þess að auknar líkur séu á astma hjá börnum og fullorðnum sem eru mikið í sundi.
Að öðru leiti gilda almennar slysavarnir í sundlaugum. Vona að þetta svari spurningu þinni.

Með kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
27. júní 2012