Spurt og svarað

08. mars 2014

Barn no.2 eftir meðgöngueitrun

Sæl
Ég og maðurinn minn erum að íhuga barneignir nr 2 en maðurinn minn er frekar smeykur vegna þess hversu slæm fæðingin mín var. Stelpan okkar er 10 mánaða. Ég fékk hellp meðgöngueitrun þegar ég var komin 36vikur. Ég vissi sem sagt ekki af því en fór upp á fæðingardeild út af óþægindum og ég var farin í bráðakeisara klukkutíma seinna. Mér var sagt að ég gæti misst legið og manninum mínum var sagt að þetta var mjög áhættusöm aðgerð út af blóðinu. Ég var á spítalanum í viku og var með lágmarks meðvitund fyrstu tvo dagana. Stelpan var alveg heilsuhraust en var í 2 daga á vöku til að fylgjast með henni. Hann er mjög hræddur um að þetta gerist aftur og við vorum að velta því fyrir okkur hvort að það er eitthvað hægt að koma í veg fyrir þetta og hverjar eru líkurnar á að þetta gerist aftur.
Kveðja Birtabeauty

Sæl vertu og takk fyrir bréfið

Þið hafið greinilega lent í heilmikilli lífsreynslu þegar dóttir ykkar fæddist og eðlilegt að þið veltið því fyrir ykkur hvort slíkt geti gerst aftur. Það er vissulega svo að hafi maður sögu um alvarlega meðgöngueitrun eða hellp, er aukin hætta á að það endurtaki sig. Í næstu  meðgöngu myndir þú vera í þéttari eftirliti og meðgönguverndin myndi fara fram í áhættumæðravernd LSH. Reynt er eftir fremsta megni að greina eins snemma og mögulegt er ef meðgöngueitrun er í uppsiglingu. Ég ráðlegg ykkur að hitta fæðingarlækninn ykkar áður en þið ákveðið næstu þungun og ráðfæra ykkur við hann/hana. Einnig er hægt að panta viðtal hjá ljósmæðrum Kvennadeildar LSH til að ræða fæðingarreynslu ykkar, sú þjónusta kallast Ljáðu mér eyra.

Gangi  ykkur vel.

Bestu kveðjur, Björg Sigurðardóttir, ljósmóðir.
Yfirfarið í janúar 2020


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.