Barneignir á dagskrá

30.04.2004

Nú erum við hjónin að spá í barneignum er eitthvað sem ég á að vera að gera á meðan við erum að reyna annað en að hreyfa mig reglulega og borða hollan mat? Á ég að byrja að taka fólinsýru á meðan við erum að reyna eða er það eitthvað sem maður tekur bara þegar maður verður óléttur?

........................................................................

Sæl!

Þú ert alveg á réttri braut því það er mjög mikilvægt að borða hollan mat og stunda hreyfingu.  Eina vítamínið sem mælt er með að allar barnshafandi konur taki er fólínsýra.  Æskilegt er að taka 400 míkrógrömm (0,4 mg) á dag í 4 vikur fyrir meðgöngu og á meðgöngunni sjálfri a.m.k. á fyrstu 12 vikur meðgöngunnar.   Margar fæðutegundir innihalda fólínsýru sérstaklega grænmeti, ávextir, baunir og vítamínbætt morgunkorn.  Fólínsýra er ekki skaðleg en þó er ekki ástæða til að taka meira en 400 míkrógrömm á dag, nema læknir eða ljósmóðir ráðleggi annað.

Þú getur skoðað grein sem heitir Næring á meðgöngu hér á síðunni í dálknum Meðgangan til að fræðast betur um mataræði á meðgöngu.  Ég vil einnig benda þér á að skoða greinarnar um Reykingar og Áfengi og fíkniefni sem einnig eru í dálknum Meðgangan hér á síðunni.

Ef þú tekur einhver lyf að staðaldri eða ef þú ert haldin einhverjum sjúkdóm skaltu ráðfæra þig við lækninn þinn.

Vonandi gengur ykkur vel.

Kær kveðja,                                                                                              
Anna Sigríður Vernharðsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir - 30. apríl 2004
.