Blæðingastopp?

08.08.2007
Sæl,
Ég var að hætta á pillunni eftir að hafa verið á henni í 7 ár.  Áður var égmeð óreglulegar blæðingar (minnir að það hafi verið svona sirka 2 mánuðir sem voru á milli um það bil).  Núna höfum við maðurinn minn ákveðið að eignast barn svo ég hætti á pillunni fyrir um mánuði síðan.  Einu sinni á þessu 7 ára tímabili ákvað ég að hætta á pillunni, nema þá byrjuðu blæðingar ekkert svo hálfu ári seinna fór ég til kvensjúkdómalæknis og hún gaf mér töflur til að koma blæðingum af stað og ég byrjaði aftur á pillunni í framhaldinu.  Geturðu frætt mig um þetta ferli, þ.e. hvort ég þurfi aftur að fá svona skammt til að koma blæðingunum af stað til að verða ólétt, eða hvort egglos sé þrátt fyrir að það koma ekki blæðingar?

 
Komdu sæl og takk fyrir að leita til okkar.
Það er ómögulegt að segja hvort sagan endurtaki sig og tíminn verður bara að leiða  það í ljós.  Það er samt vel þekkt að blæðingar geta verið óreglulegar fyrstu mánuðina eftir að kona hættir á pillunni þannig að þú þarft kannski að gefa þessu svolítinn tíma.  Egglos verður á undan blæðingum þannig að þú getur orðið ólétt þó þú hafir ekki farið á túr.  Ef þér fer að lengja eftir blæðingunum þá leitaðu endilega til læknisins þíns.
Gangi þér vel.
Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur. 
8.ágúst 2007.