Spurt og svarað

28. júní 2005

Blöðrufóstur eða fósturlát

Sæl og takk fyrir frábæran vef.

Þannig er mál með vexti að ég varð fyrir því óláni að greinast með blöðrufóstur eftir 11 vikna meðgöngu þar sem ég hafði ekki farið til kvensjúkdómslæknis til þess að fá staðfestingu. Það var mín ákvörðun á þeim tíma en ég veit að næst þá fer ég um leið og hægt er að sjá hvort um fóstur er að ræða eða ekki. Því mæli ég hiklaust með því að konur fari og fái staðfestingu, því erfiðara er að takast á við erfiðleikana eftir því sem á líður. En jæja nóg um það.

Læknirinn minn talaði um að bíða með að reyna aftur í um 2-3 mánuði en samkvæmt þeim greinum sem ég hef lesið m.a. á þessum vef er talað um eitt ár. Í mínu tilfelli var aldrei um að ræða fóstur og því ekki fósturlát. Það sem ég velti hins vegar fyrir mér er það af hverju talað er um eitt ár eða eitthvað skemur eins og í mínu tilfelli samkvæmt lækninum. Er eitthvað verra að greinast með blöðrufóstur eða að missa fóstur? hvað er það sem veldur því þá að maður þurfi að bíða lengur, ef svo er?
með von um svör og kærar þakkir

Sæl og takk fyrir hólið!

Mér þykir líklegt, fyrst læknirinn þinn telur óhætt að reyna aftur eftir 2-3 mánuði, að við séum að tala um 2 ólíka hluti hér. Það getur verið um skilgreiningaratriði að ræða eða vandamál í sambandi við þýðingu úr ensku yfir í íslensku. 

Ef um móluþungun er að ræða, (sem stundum er kallað blöðrufóstur, blöðruþungun eða blöðruegg) þarf að fylgjast með konunni í eitt ár eftir þungun vegna mögulegra vandamála.  Horfurnar eru góðar ef þetta uppgötvast snemma. Skilgreiningar á þessu eru í annarri fyrirspurn hér á síðunni. Ef konan er með það sem kallast complete mole getur hún fengið choriocarcinoma sem er alvarlegt krabbamein. Því er mjög mikilvægt að konan fari í útskaf sem fyrst eftir að þetta hefur uppgötvast og að allur fylgjuvefurinn sé fjarlægður. Óeðlilegur fylgjuvefur getur þrengt sér út í legvegginn og ferðast um líkaman. Hann getur jafnvel borist til lungna.  Þessi fylgjuvefur gefur frá sér óeðlilegt magn ákveðinna hormóna sem fylgst er með eftir að konan hefur farið í útskaf. Þetta eftirlit varir í u.þ.b. eitt ár og er konunni ráðlagt að bíða með frekari barneignir á meðan á eftirliti stendur og þarf að fylgjast með henni þegar næsta þungun verður.

Ef um er að ræða það sem kallast á ensku Blighted ovum (oftast talað um tóman fóstursekk á íslensku) er átt við fósturlát þar sem fóstrið hefur visnað en fóstursekkurinn er ennþá eftir. Oft eru sterk tengsl milli litningagalla og Blighted Ovum. Í ómskoðun eftir slíkt fósturlát sést ekkert fóstur, óreglulegur fóstursekkur og blæðing getur verið mismikil. Oft byrjar ekki að blæða fyrr en nokkru eftir að fóstrið er dáið. 

Nú veit ég ekki hvort á við í þínu tilfelli en verið gæti að íslensku þýðingarnar á þessum fyrirbærum séu að trufla okkur.  Ég myndi ráðleggja þér að hafa samband við þinn lækni og fá á hreint um hvað var að ræða í þínu tilfelli.

Vonandi  svarar þetta spurningu þinni en hafðu endilega samband ef þú hefur fleiri spurningar.

Kær kveðja, Guðrún Sigríður Ólafsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
Yfirfarið í janúar 2020

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.