Spurt og svarað

30. maí 2006

Bólusetning (MMR) stuttu fyrir þungun

Kæra ljósmóðir!

Ég er fædd 1982 og er komin 23 vikur á leið með tvíbura. Allt gengur vel og ekkert að kvarta yfir neinu. Ég varð samt fyrir áfalli um daginn. Ég fór nefnilega í bólusetningu 15. desember 2005 gegn hettusótt, mislingum og rauðum hundum. Árgangurinn ´81-´85 var kallaður inn í sprautu vegna mistaka sem orðið hafði með bóluefni sem við fengum sem börn. Maðurinn minn fór líka í þessa sprautu. Ég fór í þessa sprautu sem tók 2 sekúndur. Ég var ekkert spurð hvort ég væri ólétt eða væri í hugleiðingum. Bara sprautuð og mér sagt að ég yrði kannski veik eftir 10 daga! Svo varð ég þunguð vikunni eftir. Svo var ég á tali við vinkonu mína sem er ólétt líka og á að eiga um svipað leiti og ég. Hún fór í sprautuna á svipuðum tíma og ég og hún var spurð hvort hún væri ólétt og að hún mætti ekki verða það næstu sex vikurnar. Svo var það kunningja vinkona mín sem var látin skrifa undir eitthvað plagg um að hún væri ekki ólétt. Ég spurði ljósmóðurina mína hver afleiðingin fyrir fóstrin vegna sprautunnar gætu verið og hún nefndi heyrnarleysi! Henni brá mikið þegar ég sagði henni frá þessari sprautu minni og að ég hefði ekki verið spurð einu sinni hvort ég væri ólétt og að ég mætti það ekki á næstunni. Ég var að lesa líka á doktor.is og þar segir að „stúlkur sem eru bólusettar gegn rauðum hundum megi ekki verða ófrískar næstu þrjá mánuði“.

Því spyr ég:

  • Hverjar eru líkurnar á að börnin mín verði heyrnarlaus? Þá er ég að tala um í prósentum?
  • Af hverju er brýnt fyrir konum að verða ekki óléttar næstu 3 mánuðina eftir sprautuna?
  • Af hverju eru konur spurðar hvort þær séu óléttar áður en þær fá sprautuna?
  • Átti ég ekki rétt á því að vera spurð þessara spurninga og fá þessa fræðslu áður en ég var sprautuð?
  • Hver er minn réttur ef svo fer að börnin verða svo heyrnalaus? Get ég kært?
  • Á ég ekki rétt á því að fá svör frá heilsugæslunni af hverju ég fékk enga fræðslu?

Þetta eru allavega þær spurningar sem hafa blundað í manni. Ég og maðurinn minn erum allavega í hálfgerðu áfalli eftir þessar upplýsingar sem við vorum að fá mörgum mánuðum eftir sprautuna, og það ekki frá starfsfólki heilsugæslunnar okkar, heldur bara frá fólki útí bæ. Að okkar mati er þetta vítavert kæruleysi.

Komdu sæl og takk fyrir að leita til okkar!

Það er vitað að ef móðir sýkist af rauðum hundum snemma á meðgöngu (oftast fyrir 16. viku) þá getur það valdið fósturláti eða fósturskaða í heila, hjarta, augum og eyrum, t.d. heyrnarleysi. Fræðilega séð gæti bólusetning, þar sem lifandi veikluðum veirum er sprautað inn í líkamann, haft svipuð áhrif og þess vegna hafa menn forðast að bólasetja konur gegn rauðum hundum á meðgöngu. Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) hefur 1000 konum sem fengu bólusetningu á meðgöngu verið fylgt eftir og hefur enginn fósturskaði verið greindur í þessum stóra hópi. Á vefsíðu WHO kemur fram að nú sé konu óhætt að verða þunguð einum mánuði eftir bólusetningu en áður var mælt með að bíða í þrjá mánuði. Á vefsíðu WHO segir ennfremur að þó að kona sé bólusett gegn rauðum hundum á meðgöngu þá sé það ekki ástæða til fóstureyðingar.

Samkvæmt því sem kemur fram í bréfi þínu þá lítur út fyrir að starfsfólk heilsugæslunnar hafi ekki unnið faglega í þetta sinn þar sem hvorki upplýsingasöfnun né fræðsla fór fram þegar þú varst bólusett og þú átt að sjálfsögðu rétt á því að fá skýringar á því. Ég vil hvetja þig til að hafa samband við stjórnendur heilsugæslustöðvarinnar og segja þeim sögu ykkar.

Að lokum vil ég benda þér á að þú getur leitað til Landlæknisembættisins ef þú ert ekki ánægð með svörin eða þjónustuna á heilsugæslustöðinni.

Ég vona að þessar upplýsingar komi að einhverju gagni.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
Yfirfarið í janúar 2020

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.