Spurt og svarað

13. janúar 2013

Brjósklosaðgerð og fyrri keisari

Sælar.
Nú er löngu kominn tími á næsta barn hjá okkur hjónum en ég fresta því endalaust vegna hræðslu eftir fyrri meðgöngu, fæðingu, sængurlegu og brjóstagjöf. Er dauðhrædd við þetta og finn alltaf ástæðu til að fresta en höfum samt tekið tímabil þar sem við höfum reynt, alveg upp í hálft ár en ekkert gerist, þá verður uppgjöf hjá mér og við frestum þessu, eða réttara sagt, ég fresta því. En samt sem áður óska ég mér annars barns. Ég fór í brjósklosaðgerð í júní síðastliðnum og veit að ég mun aldrei verða með afgerandi gott bak aftur en ég fékk fyrst brjósklos stuttu eftir fæðingu sonarins 2006. Hef verið bakveik síðan, að hluta til arfgengt en er mjög fött í ofanálag og aðeins í yfirþyngd. Ég endaði í bráðakeisara og svæfingu síðast eftir 3ja tíma rembing og 18 tíma hríðar og kom þá í ljós að grindin er þröng, eða útstæðar spinae i grindinni sem gerir það víst að verkum að það má ekki vera minnsta skekkja á höfði barnsins til að fæðingin verði erfið eða gengur ekki. En eftir svona, þ.e. fyrri keisara eftir erfiða fæðingar"tilraun" og brjósklosaðgerð, er þá mælt með fæðingu? Og yfir höfuð eftir brjósklosaðgerð eina og sér? Og hvernig er meðganga eftir brjósklosaðgerð?
Með kveðju

Komdu sæl.
Mikið er leiðinlegt að heyra að þú sért hrædd eftir fyrri fæðingu og þetta hafi ekki gengið nógu vel. Brjósklosaðgerð kemur ekki í veg fyrir að ganga með barn. Margar konur verða barnshafandi eftir brjósklosaðgerðir og gengur oftast vel hjá þeim. Það sem þarf að hafa sérstaklega í huga að hlusta vel á líkamann og beita sér rétt til þess að fá ekki verki í bakið. Ef bakverkir koma á meðgöngu er gott að tala við ljósmóður eða lækni fljótt og fara til sjúkraþjálfara. Einnig þurfa sumar konur að minnka við sig vinnu eða hætta snemma til að vernda bakið. Í sambandi við fæðinguna sjálfa þarf að meta það hvort reynt verði á fæðingu. Allar konur sem hafa farið í keisara áður fá viðtal við fæðingarlækni á meðgöngunni og er þá farið yfir fyrri fæðingu og metið í samráði við konuna hvort reynt verði við aðra fæðingu eða hvort skipulagður verði keisari.

Ég vil einnig benda þér á ef fyrri fæðing er að valda þér áhyggjum fyrir næstu meðgöngu er hægt að hafa samband við Ljáðu mér eyra á Landspítalanum. Þar færðu viðtal við ljósmóður og getur rætt við hana um fyrri fæðingarreynslu.
Ég vona að þessar upplýsingar hjálpi þér og gangi ykkur vel í framtíðinni.

Kveðja, Súsanna Kristín Knútsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
Yfirfarið í janúar 2020
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.