Brúnleit útferð

18.10.2004

Ég er 27 ára og hef verið að reyna að verða ófrísk í meira en hálft ár án árangurs.  Ég hef verið að nota egglosmæli og var með egglos fyrir u.þ.b. viku síðan. Í dag tók ég eftir örlítilli brúnleitri útferð og vildi spyrja hvort þetta væri eðlilegt?  Þetta hefur gerst einu sinni áður og þá var ég ekki ófrísk. Það eru 2 ár síðan ég hætti á pillunni og tíðarhringurinn hefur alltaf verið reglulegur, yfirleitt um 26-27 daga langur.  Fyrir skömmu fór ég í skoðun hjá kvensjúkdómalækni og allt leit eðlilega út (spurði reyndar ekki út í milliblæðingar/brúnleita útferð).

Ég vona auðvitað að ég sé ófrísk en er hrædd um að eitthvað sé að.  Er ástæða til að láta athuga þetta?

.........................................................................

Komdu sæl og þakka þér fyrir fyrirspurnina.

Ég get vel skilið það að það sé erfitt að bíða en það er lítið annað sem þú getur gert en að láta tímann leiða í ljós hvort þú ert ófrísk eða ekki. Brúnleit útferð kemur reyndar stundum hjá konum u.b.b. viku eftir getnað þegar frjóvgaða eggið er að grafa sig ofaní legslímhúðina og er það kallað bólfestublæðing. Ég tel ekki að þú þurfir að láta kíkja á þig því það er allt of snemmt að segja til um hvort þú ert ófrísk eða ekki.  það eina sem ég get ráðlagt þér er að bíða og sjá og framkvæma þungunarpróf eftir u.þ.b. viku. Vonandi færðu jákvætt þungunarpróf.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Málfríður St. Þórðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
18. október 2004.