Spurt og svarað

18. október 2004

Brúnleit útferð

Ég er 27 ára og hef verið að reyna að verða ófrísk í meira en hálft ár án árangurs. Ég hef verið að nota egglosmæli og var með egglos fyrir u.þ.b. viku síðan. Í dag tók ég eftir örlítilli brúnleitri útferð og vildi spyrja hvort þetta væri eðlilegt? Þetta hefur gerst einu sinni áður og þá var ég ekki ófrísk. Það eru 2 ár síðan ég hætti á pillunni og tíðarhringurinn hefur alltaf verið reglulegur, yfirleitt um 26-27 daga langur.  Fyrir skömmu fór ég í skoðun hjá kvensjúkdómalækni og allt leit eðlilega út (spurði reyndar ekki út í milliblæðingar/brúnleita útferð).

Ég vona auðvitað að ég sé ófrísk en er hrædd um að eitthvað sé að.  Er ástæða til að láta athuga þetta?

Komdu sæl og þakka þér fyrir fyrirspurnina.

Ég get vel skilið að það sé erfitt að bíða en það er lítið annað sem þú getur gert en að láta tímann leiða í ljós hvort þú ert ófrísk eða ekki. Brúnleit útferð kemur reyndar stundum hjá konum u.b.b. viku eftir getnað þegar frjóvgaða eggið er að grafa sig ofaní legslímhúðina og er það kallað hreiðurblæðing. Ég tel ekki að þú þurfir að láta kíkja á þig því það er allt of snemmt að segja til um hvort þú ert ófrísk eða ekki. Það eina sem ég get ráðlagt þér er að bíða og sjá og framkvæma þungunarpróf eftir u.þ.b. viku. Vonandi færðu jákvætt þungunarpróf.

Gangi þér vel.

Kveðja, Málfríður St. Þórðardóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
Yfirfarið í desember 2019

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.