Spurt og svarað

31. janúar 2005

Djamm 10 dögum eftir getnað / áhyggjukona

Ég er 27 ára og er komin á síðasta mánuð meðgöngunnar, þannig að það er
kannski frekar kjánalegt að vera að spyrja að þessu en vildirðu vera svo væn að svara mér því að ég hef haft áhyggjur af þessu og ekki getað spurt neinn.
Hef reynt að leita svara á netinu, en ekki fundið nákvæmlega það sem við á hjá mér.
Þannig er að 10 dögum eftir getnað  fór ég á djammið. (En ég veit nákvæmlega hvaða dag getnaður var). Vissi þá ekki að ég væri ólétt. Ég drakk frekar mikið eins og oft þegar ég fór á djammið. En svo gerði ég annað sem ég hef ekki gert áður. Ég tók nokkra smóka af hassblönduðu tóbaki. Það var bara í asnaskap og ég sé mjög eftir því. Og að sjálfsögðu
hef ég ekki snert áfengi né neitt annað eftir að ég komst að því að ég væri ólétt.
Mér finnst ömurlegt að ég hafi akkúrat gert þetta þarna, en það er ekki hægt að breyta því sem liðið er. Spurning mín er þessi:
Er komið blóðsamband við fóstrið 10 dögum eftir getnað?
Er fylgjan orðin virk þarna?
Er eitthvað farið að berast frá móður til fósturs 10 dögum eftir getnað?
Bárust efnin í litla fóstrið mitt?
Ég þarf ekki að spyrja að því hvort þetta hafi skaðleg áhrif á fóstrið ef það berst til þess því ég veit að svo er en spurningin er sú hvort efnin hafi náð til fóstursins þar sem fylgjan er að myndast þarna. Spurning hvort þetta hafi sloppið rétt fyrir horn eða hvað.
Gætir þú fundið út úr því fyrir mig?
Með fyrirfram þökk
Áhyggjukona

Sæl Áhyggjukona og þakka þér fyrir fyrirspurnina.
Konur hafa oft áhyggjur af einhverju sem þær hafa gert áður en þær uppgötvuðu að þær væru þungaðar. Þetta eru oftast hlutir sem þeim hefði aldrei dottið í hug að gera ef þær hefðu haft vitneskju um þungunina. 

Ég er ekki viss um hvað þú átt við með blóðsambandi við fóstrið en það verður í raun aldrei beinn blóðflutningur milli móðurs og barns ef allt er eðlilegt. Blóðrás móður og barns er alveg aðskilin en það verður flutningur á efnum frá móðurblóðrás yfir himnur til fósturblóðrásar og öfugt. 

Á þessum tíma er frjóvgaða eggið að grafa sig inn í slímhúð legsins og koma sér fyrir. Ég get ekki svarið fyrir að þetta hafi ekki borist til barnsins en ég hugsa að þú þurfir ekki að hafa miklar áhyggjur af þessu ef þetta var bara þetta eina skipti, það sem skiptir mestu máli er að hætta þessu þegar þú veist að þungun hefur átt sér stað.
Ég vona að þetta svari spurningu þinni. Gangi þér vel.

Kær kveðja
Guðrún Sigríður Ólafsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
Yfirfarið í desember 2019

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.