Spurt og svarað

05. júní 2009

Ekki að stækka nóg

Í vaxtarsónar kom í ljós að barnið er 8 merkur og er ég komin 35 vikur. Ekkert fannst að neinu, legvatninu, hjartslætti, flæði í naflastreng var eðlilegt og svo framvegis. Ég hef þyngst eðlilega (13 kg og var í kjörþyngd fyrir þungun) og hef aldrei reykt. Nú á ég vonandi alla vega 5 vikur eftir af þessari meðgöngu og vona að sjálfsögðu að það bætist við 3-4 merkur. Ég veit að þetta er ekki auðveld spurning að svara en ég myndi vilja vita hvort það ætti að sjást í sónar hvort hugsanlega barnið sé dvergur eða með "dwarfism", eða hvaða aðrar ástæður gætu verið fyrir því að það er ekki að vaxa eðlilega? Frá 31 viku til 35 viku bætti það við sig tveimur mörkum. Þá er ég að meina hugsanlega sjúkdóma, sýkingar og svo framvegis.

Einnig var ég að velta því fyrir mér af hverju skimun fyrir strep sýkingu í leggöngum sé ekki rútína í mæðraverndinni þar sem þetta virðist ekki vera neitt mjög óalgengt.

Bestu þakkir fyrir svörin.

 


 

 
Sæl!

Þyngd barna við fæðingu er mjög misjöfn og eðlileg þyngd allt  frá 12 mörkum upp í 17 merkur. Það er mjög ósennilegt að barnið þitt sé dvergur, því við skoðun við 12 og 20 vikur eru útlimabein mæld og hlutfall við höfuð skoðað m.t.t. dvergvaxtar. Langlíklegast er barnið sé nett v/erfða, fyrst legvatn og blóðflæði í naflastreng var eðlilegt, en aðalvaxtartíminn er eftir og ekki ólíklegt að það eigi eftir að bæta við sig  einu kílói. Ljósmóðirin  þín mun halda áfram að mæla legstærð og senda þig þá aftur í ómskoðun ef það hefur ekki  þegar verið gert við síðust ómskoðun.

Kveðja og gangi þér vel,

María Jóna Hreinsdóttir,
ljósmóðir - deildarstjóri fósturgreinardeildar LSH,
5. júní 2009.

Varðandi spurningu þína um skimun fyrir streptókokkum í leggöngum vísast í svar um Streptókokka af tegund B (GBS) hér á síðunni.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.