E-tafla og hrár matur

28.02.2005

Þannig er mál með vexti að fyrsti dagur síðustu blæðinga var 21.des.  Á gamlárskvöld prufa ég svo að taka hálfa e-töflu (í fyrsta og síðasta skipti, bara til að taka það fram, því að ég varð hundveik af þessu eitri og hef engan áhuga á því að vera að nota eitthvað svona eitur.), einnig áður en ég vissi að ég var ólétt þá drakk ég áfengi oftar en einu sinni, hef að ég held aldrei á ævinni skemmt mér jafn mikið á jafn stuttum tíma, át hráan eða lítið eldaðan túnfisk, kryddgrafinn nautavöðva (óeldaðan), lítið steikt nautakjöt, át fullt af harðfisk  og reykti þangað til að ég komst að því að ég er ólétt.  Ég komst að því að ég væri ólétt, rétt tæpum fimm vikum eftir fyrsta dag síðustu blæðinga.  Hverjar eru eiginlega líkurnar á því að ég eigi eftir að eignast heilbrigt barn, er ég ekki búin að skemma fóstrið?

.......................................................................

Sæl og þakka þér fyrir fyrirspurnina.

Eins og þú gerir þér sjálf grein fyrir þá er þetta ekki alveg sú hegðun sem er æskilegust þegar kona er barnshafandi.  Ef þú hefur hætt um leið og þú komst að því að þú værir ólétt lítur þetta mun betur út.
Varðandi hráan mat þá alltaf ákveðin hætta á að fá bakteríur úr hráum eða lítið elduðum mat en það er ekki þar með sagt að það sé öruggt að þú fáir þær. 
Hvort þú sért búin að skemma fóstrið er erfitt að segja til um, þó held ég að það séu alveg ágætis líkur á að þú getir eignast heilbrigt barn.  Ég myndi ráðleggja þér að hafa samband við ljósmóður á þinni heilsugæslustöð eða við þinn kvensjúkdómalækni og þá er hægt að gera viðeigandi rannsóknir til að ganga úr skugga um þetta. 
Varðandi áfengi og meðgöngu er erfitt að segja til um hvað mikið magn má drekka án þess að fóstrið verði fyrir skaða, því er öllum barnshafandi konum ráðlagt frá því að nota áfengi meðan þær eru barnshafandi.
Vona að þetta svari spurningu þinni og gangi þér vel,

Kær kveðja,

Guðrún Sigríður Ólafsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
27. febrúar 2005.