Efni fyrir einstæða foreldra

01.12.2005

Sælar og takk fyrir frábæra síðu.

Getið þið bent mér á við hverja er best að tala eða hvar maður getur fundið upplýsingar og hugleiðingar um að verða einstætt foreldri.

..............................................

Komdu sæl og þakka þér fyrir að leita til okkar.

Einstæðir foreldrar með eitt barn eru að mér skilst  hátt í sjö þúsund á Íslandi þannig að þessi staða kemur líklega oft upp.  Það er mjög gott að þú skulir vera að velta þessu strax fyrir þér og kynna þér réttindi ykkar. 

Á meðgöngunni stendur öllum konum til boða ókeypis mæðravernd og er mismunandi eftir heilsugæslustöðvum hvenær konur koma í fyrstu skoðun.  Ljósmóðirin þín í mæðravernd ætti að geta bent þér á við hvern best er að tala.  Sumar heilsugæslustöðvar hafa fjölskylduráðgjafa eða félagsráðgjafa á sínum snærum sem eru vel inni í samskonar málum.  Starfandi eru félagsráðgjafar á kvennadeild Landspítalans og til þeirra er hægt að leita t.d. ef þarf faðernisviðurkenningu, meðlag og aðra félagslega aðstoð eins og dagvistun o.fl.

Allir foreldrar fá barnabætur greiddar með börnum sínum til átján ára aldurs.  Barnabætur eru að hluta til tekjutengdar en einstæðir foreldrar fá barnabótaauka.  Bæturnar eru alltaf greiddar eftir á.  Hægt er að finna út hversu miklar bætur greiddar eru með reikni á www.rsk.is.  Konur fá greitt meðlag frá barnsföður og ef hann stendur ekki í skilum þá hleypur ríkið undir bagga.

Einstæðir foreldrar eiga einnig að eiga forgang með leikskólapláss, fá hærri leigubætur og því um líkt.
Þú átt rétt á fæðingarorlofi eða fæðingarstyrk í sex mánuði og er best að afla sér allra upplýsinga um það inn á www.tr.is.
Ég hef ekki séð mikla umfjöllun á netinu um einstæðar mæður en það getur vel verið að til sé heimasíða tileinkuð einstæðum foreldrum.
Vonandi hjálpar þetta þér eitthvað til að komast af stað
Gangi þér vel

Kveðja,

Málfríður Stefnanía Þórðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
1. desember 2005.