Egglosverkir!

28.01.2015

Sæl, getur þú upplýst mig um egglosverki. Ég er farin að fá þá, en mismikla. Er ekki að taka nein lyf til að hjálpa til við egglos, heldur hefur þetta bara verið að koma síðustu mánuði. Finn voða lítið um þetta. Kv. E


Heil og sæl, verkir við egglos eru eðlilegir verkir sem að sumar konur finna fyrir þegar egglos verður. Egglos er 14 dögum fyrir upphaf blæðinga. Þessir verkir geta verið allt frá því að vera  smá seiðingur í að vera talsverð óþægindi.  Yfirleitt finnst þetta aðeins öðru megin eða þeim megin sem egglosið er. Verkirnir/óþægindin geta verið mismikil milli mánaða.
Þegar eggið þroskast er það umlukið vökva en í egglosinu fer þessi vökvi ásamt egginu og stundum smáblóði út úr eggbúinu. Þó að ekki sé nákvæmlega vitað hvað veldur egglosverk þá er talið að vökvinn og blóðið sem koma úr eggbúinu valdi ertingu í kviðnum og valdi þannig verk. Verkurinn hverfur svo þegar líkaminn hefur uppsogað vökvann.
 
Bestu kveðjur
Áslaug V.
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
28.01.2015