Elocon á meðgöngu

31.03.2010

Ég er komin 14 vikur á leið með mitt annað barn og er að velta fyrir mér hvort að mér sé óhætt að nota Elocon lausn við exemi. Ég er með exem í eyrum og er ég með mikil óþægindi vegna þess en hef ekki þorað að nota lyfið en staðan er sú að núna er kláðinn allt að því óbærilegur. Er mér óhætt að nota Elocon 0,1% eins og ég gerði fyrir meðgöngu eða u.þ.b. einu sinni í mánuði í 4-5 daga?


Sæl og blessuð!

Það er alltaf erfitt að svara svona spurningum á netinu og þú ættir að ráðfæra þig við lækni varðandi þetta lyf. Ef þetta lyf hentar ekki þá getur verið að þú getir notað eitthvað annað lyf á meðgöngunni.

Það kemur fram í sérlyfjaskránni að engin reynsla sé fyrirliggjandi af notkun Elocon á meðgöngu og ætti eingöngu að nota samkvæmt læknisráði á meðgöngu. Þar er einnig talað um að varast að meðhöndla stór húðsvæði í langan tíma. Þar segir ennfremur: „Í dýrarannsóknum hafa komið fram eiturverkanir á æxlun við staðbundna notkun barkstera. Ekki er vitað um þýðingu þessara niðurstaðna varðandi notkun hjá mönnum. Minni fylgju- og fæðingarþyngd hefur komið fram hjá dýrum og mönnum eftir langvarandi meðferð. Við langvarandi meðferð er auk þess er hætta á hömlun á starfsemi nýrnahettna, hjá nýfæddum börnum.“

Á vefsíðunni www.safefetus.com er fjallað um lyf og öryggi þeirra á meðgöngu og þar er þetta lyf flokkað í C-flokk sem þýðir að annað hvort hafi dýrarannsóknir sýnt fram á óæskileg áhrif lyfsins eða þá að hvorki hafi verið gerðar vandaðar rannsóknir á dýrum eða konum. Lyf í þessum flokki ætti eingöngu að nota þegar ávinningurinn vegur þyngra eða réttlætir hugsanlega áhættu fóstursins.

Vona að þið finnið einhverja góða lausn á þessu.

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
31. mars 2010.