Er boðið upp á ?tékk? fyrir meðgöngu

22.12.2006

Jæja, nú er komið að því að mér og manninum að fara að langa að fjölga mannkyninu. Mig langaði að vita hvort það væri boðið upp á eitthvers konar „tékk“ áður, þ.e. hvort maður sé búin að fá hlaupabólu og aðra veirusýkingar sem gætu komið niður á fóstrinu á meðgöngu.

Takk fyrir æðislegan vef :)


Sæl og blessuð! Takk fyrir að leita til okkar!

Mér finnst þetta frábær spurning hjá þér og svona þjónusta ætti að sjálfsögðu að vera sýnileg.

Ég er alveg viss um að þú getur leitað í þína heilsugæslustöð til að fá mælingu á því hvort þú hafir fengið hlaupabólu og rauða hunda eða sért með næg mótefni gegn rauðum hundum.

Ef liðin eru meira en 2 ár frá því að síðast var tekið sýni frá leghálsi til að kanna krabbamein þá ættir þú að láta taka slíkt sýni. Það er hægt að láta taka slíkt sýni hjá í Leitarstöð Krabbameinsfélagsins, hjá kvensjúkdómalæknum og á heilsugæslustöðvum.

Ef þú tekur inn lyf að staðaldri hvort sem það eru lyfseðilsskyld lyf eða önnur lyf þá ættir þú að ráðfæra þig við þinn lækni um það, sömuleiðis ef þú ert með einhverja sjúkdóma.

Þú ættir að fara að taka inn 400 míkrógrömm (0,4 mg) fólínsýru á dag og halda því svo áfram fyrstu þrjá mánuði meðgöngunnar.

Það er líka gott að fara að huga að því að borða hollt og fjölbreytt fæði ef þið gerið það ekki nú þegar. Þið getið t.d. kíkt á pistilinn okkar um Næringu á meðgöngu hér á síðunni.

Reykingar, neysla áfengis og fíkniefna er auðvitað ekki æskileg á meðgöngu og þið getið fræðst um það hér á síðunni.

Vona að allt gangi vel hjá ykkur. Gleðileg jól!

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
22. desember 2006.