Spurt og svarað

04. maí 2015

Er ég ófrísk?

Komið þið sælar, nú er ég með smá vangaveltur. Ég byrjaði á blæðingum þann 28. mars og tveimur vikum seinna höfðum ég og fyrrum kærasti minn mök og það sem að ég er að velta fyrir mér er hvort það sé möguleiki á að ég sé þunguð, ég tók þungunarpróf föstudaginn 24 apríl sem var neikvætt svo að ég ákvað að bíða í nokkra daga í viðbót og tók annað próf miðvikudaginn 29 april aftur og kom það einnig neikvætt út en samt sem áður hafa engar blæðingar látið bóla á sér. Ég hef verið aum í brjóstunum í kring um geirvörturnar í 2 vikur og einnig hefur mig klæjað í þau og svo hef ég tekið eftir að það kemur vökvi úr brjóstunum þó svo að lítill sé. Svo hef ég haft túrverkja seyðing sem kemur og fer en engar blæðingar láta sjá sig ennþá. Ég hef verið seinustu mánuði með 32 daga tíðarhring svo að ég hefði átt að byrja 28 april aftur á blæðingum. Jú og svo eitt enn ég hef tekið eftir skrítnu bragði í munninum og kláða yfir allan magann og að fá útbrot en ég fékk þessi útbrot þegar að ég gekk með dóttur mína svo að nú er spurning hvort það sé fræðilegur möguleiki að vera ófrísk og fá samt neikvætt á þungunarprófum. Ég hef lesið um að sumar konur hafi fengið neikvætt alveg til 12 og 16 vikna meðgöngu svo að getur þetta verið möguleiki. Ég er með þennan sjúkdóm PCOS og ég veit að hann getur plagað mann en hann hefur verið til friðs síðan 2010 og hef ekki misst úr blæðingum síðan að ég átti dóttur mína 2011 fyrr en núna.


Heil og sæl, jú vissulega er möguleiki á því að þú sért þunguð þar sem þú hefur haft samfarir í kringum þann tíma sem er líklegastur til frjóvgunar. Þú tekur þungunarpróf nokkuð snemma þar sem í raun ertu ekki komin framyfir blæðingar þegar þú tekur prófið. Hormónið sem er mælt í þungunarprófi (hCG) fer ekki að mælast fyrr en eggið hefur komið sér fyrir í leginu. Ef þú tekur prófið of snemma er líkami þinn ef til vill ekki farinn að framleiða nægjanlegt magn af hCG hormóni til að það komi fram í þungunarprófi. Ég ráðlegg þér að bíða í viku og endurtaka prófið ef engar blæðingar koma á þeim tíma.  Ef þú ert ófrísk ertu svo stutt komin skv. þessu að þú ættir ekki að finna fyrir neinum einkennum ennþá.Gangi þér vel.
Bestu kveðjur
Áslaug V. ljósmóðir 
 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.