Spurt og svarað

27. mars 2008

Erfið fyrri meðganga

Góðan dag.

Mig langaði að forvitnast aðeins. Mig er farið að langa svolítið í annað barn þar sem það eru að verða komin fjögur ár frá því síðast og mig langar í allavega 3stk. Síðasta fæðing hjá mér var algjör draumur en meðgangan var algjör martröð og ég er ekki viss um að ég geti höndlað aðra eins meðgöngu.  Ég ætla að byrja á því að lýsa aðeins hvernig síðasta meðganga var, en þá var ég farin að hrynja niður vegna verkja í baki og fótum, áður en ég vissi að ég væri ólétt. Það versnaði bara með tímanum og þegar ég var komin 16vikur að þá gat ég varla gengið en þar sem fólki fannst þetta bara vera aumingjaskapur í mér þá gerði ég allt sem ég þurfti að gera, bara hægar og hætti að kvarta. Þegar ég var komin um 20 vikur gat ég ekki komist sjálf úr rúminu á morgnana og ef ég var ein heima og settist/lagðist niður einhversstaðar að þá varð ég bara að gjöra svo vel og sitja/liggja þar, þar til einhver kæmi heim. Svefninn minnkaði mikið vegna verkja og dofa í báðum fótum með tilheyrandi óþægindum.

Mér fannst líf- og rófubeinið vera að detta af mér. Mjaðmagrindin skekktist og dofinn fór að vera allann sólarhringinn hjá mér, nú kominn upp í mitt bak. Ég var svo dofin í bakinu, rassinum, lífbeininu og fótunum að ég fann ekki fyrir því, í öll þau skipti þegar ég var stungin meðan ég var í nálarstungu.  Byrjaði ekki í sjúkraþjálfun fyrr en ég var komin 32vikur á leið, þar sem ljósmóðirin mín hafði sagt mér þegar ég var komin 16vikur að ég ætti ekki að hafa neinar áhyggjur af verkjum á þessu stigi, en sem sagt þegar ég var komin 32vikur, þá brotnaði ég niður og loks var mér trúað.

Hryggjaliðirnir fóru á flakk með tilheyrandi óþægindum og svefninn, þegar ég var komin um 30 vikur á leið, var farin að vera ef ég var heppin, um 4klst, einstaka nætur. Ég bjó á 3ju hæð í blokk og var farin að vera í 10-15mín að labba upp og niður, þegar ég var að drífa mig. Ég fór aldrei í kaffi með vinnufélögunum því ég treysti mér ekki til að ganga niður stigann til að fara á kaffistofnua. Að lokum fékk ég loks að minnka við mig vinnuna (mjög erfið líkamlega og andlega). Það, ásamt verkjunum varð til þess að ég varð þunglynd. Verkirnir urðu svo enn meiri eftir fæðinguna og þunglyndið líka. Ég hef alla tíð verið mikill íþróttafíkill og verið í mörgum í einu, en eftir meðgönguna hef ég í rauninni aldrei, þrátt fyrir sjúkraþjálfun jafnað mig eftir þetta. Svo varð ég fyrir miklu áfalli, að mínu mati þar sem mig langar að geta hreyft mig almennilega, að ég braut á mér bakið. Nú finnst mér ég hafa jafnað mig ágætlega, en finn enn oft fyrir verkjum á þessu svæði og þetta var þriðji lendarliðurinn hjá mér svo ég er svo hrædd um að þar sem þetta er svona neðarlega, að það eigi eitthvað eftir að hrjá  mig. Spurningarnar mínar eru í rauninni.. eru mikilar líkur á að næsta meðganga verði eins og sú síðasta (er það algilt)? ætli ég muni finna mikið fyrir brotinu (sem er eflaust orðið mjög gott núna)? og líka bara...er eitthvað meira sem hægt væri að gera fyrir mig heldur en síðast, eða væri það bara spurning um að byrja fyrr að minnka vinnuna og fara í sjúkraþjálfun, nudd og nálarstungur?  Ég hef spurt lækninn minn, sem er ekki starfi sínu vaxinn lengur, út í þetta en fæ engin svör en hins vegar sagði kvensjúkdómalæknirinn mér að ég ætti að vera alveg 110% viss að ég vildi annað, áður en ég færi í þennan pakka.

Kveðja Ég 


 Komdu sæl.

Þetta er ófögur lýsing á meðgöngunni en það sem vantar er hvort eitthvað var undirliggjandi fyrir.  Varstu slæm í baki, grind og fótum áður en þú varðst barnshafandi eða var þetta allt meðgöngutengt?

Það er oft þannig að á meðgöngu ýfast upp gömul meiðsl eða verkir þar sem líkamsstaðan og þyngdin breytist.  Það er engin meðganga eins en ef þetta var allt meðgöngutengt síðast er samt líklegt (ekki öruggt)að þetta taki sig aftur upp í næstu meðgöngu og því skaltu vera vel undirbúin áður en þú tekur ákvörðun um annað barn.  Það sem gerir næstu meðgöngu líka erfiðari er að nú ertu með barn sem þarf að annast og tekur ekki mikið tillit til þess hvernig þér líður.

Ég mundi ráðleggja þér að tala við þann bæklunarlækni sem hefur annast þig m.a. þegar þú brotnaðir og fá hans álit og spyrja hvað væri hægt að gera en ég held að þau atriði sem þú nefnir séu um það bil það sem hægt er að bjóða uppá.

Einnig gætir þú haft samband við Ljáðu mér eyra á Kvennadeild landspítalans þar sem þú getur fengið tækifæri til að fara yfir mæðraskrána þína með sérfræðingi, ljósmóður, sálfræðingi og félagsráðgjafa, eftir þörfum.  Þar getur þú rætt um meðgönguna frá a - ö  og hvað mætti gera öðruvísi í næstu meðgöngu.

Gangi þér vel

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
27. mars 2008.

 

 

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.