Spurt og svarað

06. ágúst 2008

Erum að reyna - tíðahringurinn o.fl.

Komdu sæl!

Við hjúin erum búin að reyna við þá kúnst að koma litlu ljósi í þennan heim í rúmlega 2 ár. Það fór að bera á óþolinmæði hjá okkur og því létum við athuga hvort allt væri í lagi hjá okkur, sem og það er, eina sem eftir er að vísu er að athuga eggjastokkana hjá mér. Tíðahringurinn minn fór úr 28 dögum upp í 32-34 daga núna um áramótin og hefur haldist þannig þangað til núna þá var hann 25 dagar.

Spurning mín er, er eitthvað sem við gætum gert til að auka líkur okkar, ég tek inn fólínsýru, hann inn sink. Þyngdartap hefur gengið vel hjá okkur, erum bæði í meðallagi en vildum vera viss og því tókum lífstíl okkar algerlega í gegn.

Með fyrirfram þökk.

 


 

Sæl og blessuð!

Það er gagnlegt að gera sér grein fyrir hvenær þú er frjó svo þið séuð að reyna á réttum tíma  mánaðarins. Gott er að halda dagbók um tíðahringinn eins og þú virðist gera og skrá hjá þér í hverjum mánuði hvenær tíðir hefjast því þannig getur þú séð hversu langur tíðahringurinn er að meðaltali. Yfirleitt verður egglos um 14 dögum fyrir blæðingar sem þýðir að egglos verður á 14. degi tíðahringsins ef hann er 28 dagar en á 16. degi ef hann er 30 dagar o.s.frv. Frjóa tímabilið byrjar hins vegar 3-4 dögum fyrir egglos og varir 1-2 daga fram yfir egglosið því sæðisfrumur geta lifað í 3-4 daga en sæði þarf að komast í samband við eggið á innan við 12-24 tímum frá egglosi.  Mestu líkurnar á því að geta barn er því á 10-16 degi tíðahringsins miðað við 28 daga tíðahring. Ef tíðahringurinn er 30 dagar eru frjóu dagarnir 12.-18. dagur og ef hann er 25 dagar eru það 7.-13. dagur.

Það er líka þekkt að hitinn hækkar þegar egglos verður og því getur verið gagnlegt að mæla líkamshitann á hverjum morgni til að gera sér grein fyrir hvenær egglos verður. Líkamshitaaðferðina getur þú notað til að gera þér grein fyrir því hvenær egglos er hjá þér en það er í raun of seint að byrja að reyna þegar líkamshitinn hefur hækkað þar sem egglosið hefur þá líklega orðið og frekar stuttur tími til stefnu. Líkamshitaaðferðin er frekar notuð í þeim tilgangi að gera sér grein fyrir því hvenær egglos á sér stað í tíðahringnum og um að gera að skrá þessar mælingar í dagbókina líka.

Hægt er að kaupa egglospróf en þau mæla hormónið LH í þvagi. Hækkun á LH gefur til kynna að egglos sé væntanlegt og því rétti tíminn til að reyna. Mikilvægt er að lesa og fylgja vel leiðbeiningum.

Margar konur finna fyrir breytingu á útferð í kringum egglos þar sem hún eykst og verður sleipari.

Flott hjá ykkur að taka lífsstíilinn í gegn og gott hjá þér að taka inn fólínsýru. Sink er talið auka sæðisframleiðslu og hreyfanleika sáðfruma þannig að þið eruð að gera allt sem hægt er.

Gangi ykkur vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
6. ágúst 2008.


Leitarorð: ófrjósemi, egglos, egglospróf

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.