Spurt og svarað

03. september 2013

Fæðingarhugleiðingar

Ég er að fara að sækja fæðingarskýrsluna mína á mánudaginn og er búin að vera með fæðinguna svolítið á heilanum síðustu daga og mikið að pæla í næstu fæðingum. Ég er búin að vera að skoða helling á netinu en finn ekki svör við akkúrat því sem ég er að pæla í. Átti barn í janúar á þessu ári og fæðingin gekk skelfilega illa, ég var sett af stað vegna meðgöngusykursýki og frá fyrsta stíl þar til barnið var fætt tók 62 klst! Fékk 9 stíla, hríðaraukandi, var með 1-2 mín á milli hríða í 20 tíma, barnið í framhöfuðstöðu og skakkt, rembdist í 2 tíma og endaði í bráðakeisara, fékk sýkingu og var rosalega lengi að jafna mig.
1. Eru meiri líkur á að fá meðgöngusykursýki ef maður hefur fengið það áður
2. Ef maður fær meðgöngusykursýki er maður settur af stað eftir að hafa átt erfiða, langdregna, gangsetningar, bráðakeisarafæðingu áður? hef lesið að það sé ekki mælt með gangsetningu ef maður hefur átt erfiða,langdregna,bráðakeisara, áhalda fæðingu að baki en allar konur með meðgöngusykursýki eru settar af stað.
3. Hvenær fær maður að tala við fæðingarlækni til að ákveða hvort maður vilji eðlilega fæðingu eða valkeisara?
4. Las einhverstaðar að maður væri í áhættumeðgöngu ef maður hefur farið í keisara áður, fer maður þá í mæðravernd á LSH?
5. Fer maður fyrr í sykurþolspróf á meðgöngu 2 eftir sykursýki á fyrri meðgöngu? Ég er ekki ólétt ég er bara búin að vera að pæla svo ótrúlega mikið í þessu undanfarið. Ég ætla að eignast 2 börn í viðbót og vonandi koma með næsta eftir u.þ.b. 2-3 ár en ég er bara svo hrædd við fæðinguna að ég vil vita allt áður en ég fer útí þennan pakka aftur.
Sæl vertu.
Mér þykir leitt að heyra hversu mikið gekk á í fæðingunni þinni. Flest allar konur með meðgöngusykursýki og nota insúlín eru gangsettar og oftast ganga fæðingarnar vel, þetta gengur alls ekki alltaf svona.
Ég get svarað öllum spurningunum þínum
1. Já, ef kona hefur fengið meðgöngusykursýki eru meiri líkur á því í næstu meðgöngu. Ef konan hinsvegar breytir lífstíl sínum t.d. breytir mataræði og eykur hreyfingu minnka líkurnar aftur.
2. og 3. Nei, það er alltaf mat hvort betra sé að reyna fæðingu eða fara aftur í keisara. Í mæðraverndinni hittir þú fæðingarlækni sem fer yfir fyrri fæðingu með þér og metur kosti og galla fæðingar og keisara fyrir þig. Þú getur fengið tíma hjá fæðingarlækni til að ræða fæðingarmáta t.d. um miðja meðgönguna.
4. Það er ekki þörf á mæðravernd í áhættumæravernd á LSH eftir einn keisara. Þú getur verið í heilsugæslunni.
5. Já maður fer oftast fyrr í sykurþolpróf ef maður hefur áður greinst með meðgöngusykursýki. Einnig er tekin blóðprufa til að mæla fastandi blóðsykur sem hefur forspárgildi.
Vonandi er þetta nóg til að létta á áhyggjum þínum og vonandi gengur þér vel á komandi meðgöngum og fæðingarnar verði þér auðveldari.


Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
3. september

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.