Fjölblöðrueggjastokka heilkenni - PCOS

05.06.2007

Hæhæ

Ég er ung stelpa og var greind með PCOS ekki fyrir alls löngu þá hafði ég ekki haft blæðingar í 8 mánuði, en svo fékk ég töflur til að ýta blæðingunum af stað og byrjaði aftur á pillunni á fyrsta degi blæðinga. Núna hef ég verið á reglulegum blæðingum og ég finn alltaf fyrir egglosinu, ég verð oft fárveik.  Ég og kærastanum mínum langar að eignast barn og erum búin að vera að reyna, þá hef ég ekki tekið pilluna eða gleymt henni til þess að geta orðið ófrísk. Ég er að hugsa get ég ekki orðið ófrísk því ég er með þetta pcos þótt ég hafi egglos og blæðingar?


Hæ.

Jú þú getur orðið ófrísk þó þú sért með Fjölblöðrueggjastokka heilkenni eða PCOS en þar sem þetta hefur ójafnvægi á efnaskiptum í för með sér er hugsanlegt að það taki lengri tíma en almennt gerist vegna óreglulegra blæðinga.  Það hjálpar þó örugglega fyrst þú finnur svona vel fyrir egglosinu.  Ef þú ætlar að reyna að verða ólétt þá þarftu að hætta alveg á pillunni.  Ég mundi ráðleggja þér að vera í góðu sambandi við lækninn þinn líka og segja honum að þú sért að reyna að verða ólétt þar sem hann vill þá kannski breyta eitthvað lyfjagjöfinni þinni.  Einnig þarf að hafa gott eftirlit með þér á meðgöngu en það er nú seinni tíma mál.

Gangi þér vel

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
5. júní 2007.