Fólínsýruskortur

12.04.2008

Sæl!

Ég var í blóðprufu þar sem kom í ljós að ég var mjög lág í fólati. Hef pínu áhyggjur af þessu þar sem ég hygg á frekari barneignir. Er að taka fólínsýru og borða hollan mat. Hef áhyggjur ef ég yrði ófrísk hvort það hefði áhrif á þroska barnsins. Ég á þegar tvö heilbrigð börn. Getið þið eitthvað leiðbeint mér með þetta.

Kær kveðja, Kristrún.


Sæl og blessuð!

Fólínsýruskortur getur verið orsök fyrir alvarlegum skaða í miðtaugakerfi fóstursins, s.s. klofnum hrygg, heilaleysi og vatnshöfði. Það er því gott að þú veist af þessum skorti þá getur þú brugðist við því með inntöku á fólínsýru. Það eru sum lyf og sum sumir sjúkdómar sem eyða upp fólínsýru. Þú ættir að ræða þetta við þann lækni sem ákvað að þú færir í þessar blóðprufur til að fá frekari skýringar.

Venjulegur skammtur fyrir barnshafandi konur á fyrstu 12 vikum meðgöngunnar (reyndar fyrir allar konur á barneignaraldri) er 400 µg (0,4 mg) á dag. Konum sem hins vegar er hætt við fólínsýruskorti vegna lyfjainntöku eða sjúkdóma er ráðlagt að taka 5 mg á dag. Hægt er að fá fólínsýru í 5 mg. töflum en slíkar töflur er lyfseðilsskyldar.

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
12. apríl 2008.