En ef maður er í sundi og missir vatnið...

30.05.2008

Góðan dag.

Ég geng með mitt annað barn. Þegar mitt fyrsta kom í heiminn þá hófst ferlið á því að ég missti vatnið (og fór ekkert almennilega í gang fyrr en tæpum sólarhring síðar, en þangað til seytlaði legvatnið bara niður).

En ef maður er í sundi og missir vatnið? Kannski nýkomin ofan í og er þar í hálftíma, fer svo kannski í sólbað og áfram lekur kannski smá en maður heldur bara að það sé vatnið af sundfötunum.

Kveðja, ein á leið í sund í sumar.


Sæl!

Hugsa að þetta hafi nú hvarflað að mörgum konum, en ég hef aldrei heyrt um það að konur missi vatnið í sundi. Auðvitað getur það verið möguleiki eins og allt annað, en stundum finna konur fyrir eins konar smelli inni í bumbunni þegar vatnið fer, það er eitt merki sem hægt er að hafa í huga. Nú svo ef að svo skemmtilega vildi til að vatnið færi í vatninu, þá myndi það sennilega halda áfram að seytla eftir að þú værir komin upp úr, það er nú þannig að það fer ekki allt í einu og heldur áfram að framleiðast þar til barnið er fætt.

Kveðja,

Tinna Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
30. maí 2008.