Spurt og svarað

21. febrúar 2007

Fósturlát og starf

Góðan dag!
Þannig er nú mál með vexti að ég missti fóstur á 12.viku, það var dulið fósturlát og kvensjúkdómalæknirinn minn sagði mér að konur sem vinna á barna dagheimilum væri hættara en öðrum til að missa því það væru oft svo miklar sýkingar í gangi og fóstrið væri svo viðkvæmt fyrstu mánuðina. Svo ég var að velta fyrir mér hvort ég ætti því að reyna að finna mér eitthvað annað að starfa við áður en ég verð ólétt aftur? Er í alvörunni svo slæmt fyrir fóstrið ef móðirin vinnur á barna dagheimili? Er þá ekki eins slæmt að vera að vinna á elliheimili?

Kveðja
Ein í flækju

Komdu sæl, ég samhryggist þér vegna missisins.
 
Það er rétt að fóstur eru mjög viðkvæm fyrstu mánuðina og þar með talið fyrir sýkingum og veikindum móðurinnar. Það er m.a. þekkt að ef móðirin fær slæma pest með háum hita getur það aukið líkurnar á fósturláti. Pestar eru mikið að ganga á leikskólum, en ef móðirin verður ekki veik sjálf (sama hvar hún vinnur) eru líkurnar á fósturláti þær sömu og hjá öðrum konum eða um 10 - 20%. Það er ekki hægt að segja hvort þitt fósturlát hafi stafað af veikindum og sýkingu sem þú hefur smitast af í vinnunni eða hvort þú ert bara ein af þessum óheppnu konum sem missa og engin skýring til á því af hverju það gerðist. Þú verður auðvitað að taka þá ákvörðun sjálf hvort þú vilt skipta um starf en þú getur aldrei orðið örugg um að þetta gerist ekki. Þetta er því miður ein af áhættunum sem konur taka þegar þær ákveða að verða barnshafandi.
 
Gangi þér vel.
Rannveig B. Ragnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
Yfirfarið í janúar 2020
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.