Spurt og svarað

31. mars 2014

Fræðsla um keisarafæðingar

Góðan dag
Fyrir rúmu ári síðan átti ég strák. Þar sem báðar systur mínar hafa átt öll sín börn með keisara var ég undirbúin undir þann möguleika. Samt sem áður undirbjó ég mig undir að geta átt hann eðlilega. Ég og maðurinn minn fórum á fæðingarnámskeið til undirbúnings og lásum okkur til á netinu. Á fæðingarnámskeiðinu var ekkert talað um keisarafæðingar, aðeins sagt að þær væru svo sjaldgæfar. Meðgangan gekk vel, strákurinn skorðaði sig reyndar ekki og ég gekk næstum 2 vikur fram yfir og var sett af stað vegna meðgöngulengdar. Gangsetninginn gekk vel, fékk stíl um kvöld fór heim og þegar við komum aftur á spítalan um morgunin voru hríðar byrjaðar en mjög lítil útvíkkun. Þegar ég var sett í mónitór kom í ljós að hjartslátturinn minnkaði alltaf í hríðunum og það var ekki hægt að tékka á pH gildinu í blóði barsins vegna þess að útvíkunun var svo lítil. Strákurinn var því snögglega tekin með bráðakeisara, sem var ekkert mál vegna þess að ég bjóst svosem alveg við því vegna fjölskyldusögu. Mín aðal fyrirspurn er sú af hverju er ekki meira talað um keisara fæðingar til dæmis á fæðingarnámskeiði, ef ég hefði ekki haft upplýsingar frá systrum mínum hefði ég verið mjög óviðbúin keisarafæðingunni, en þar sem ég vissi við hverju var að búast var ég undirbúin og ekkert kvíðin fyrir aðgerðinni. Einning langar mig að vita hvort það sé ekki hægt að fá að fara í valkeisara í næstu meðgöngu byggt á fyrri meðgöngu og fjölskyldusögu.
kveðja, keisraramamma

Sæl vertu og til hamingju með drenginn þinn.
Þú spyrð hvers vegna lítið sé talað um keisarafæðingar á fæðingarfræðslunámskeiðum. Án þess að ég geti svarað fyrir þær ljósmæður sem halda slík námskeið, ætla ég að tilgangurinn með þeim sé að undirbúa konur og maka þeirra andlega og líkamlega undir fæðingu um fæðingarveg. Þess vegna fer mestur tími í fræðslu og gjarnan öndunar- og slökunaræfingar. Það er hins vegar góð ábending hjá þér að fræða einnig um við hverju megi búast þegar grípa þarf til bráðakeisara, eins og var þegar þú fæddir. Ef til vill ertu búin að sjá ágætar upplýsingar á síðunni okkar um fæðingu með keisaraskurði, en ef ekki þá eru þær hér.

Hvað varðar seinni spurningu þína um valkeisara í næstu fæðingu, vil ég benda þér á að fá tíma hjá fæðingarlækni, annað hvort fyrir næstu meðgöngu eða í byrjun hennar, og ræða væntanlega fæðingu og fæðingarmáta. Það er nú svo að við hvetjum konur til að reyna hefðbundna fæðingu, líka þó þær eigi einn keisara að baki. Til er ágætur bæklingur um fæðingu um leggöng eftir keisaraskurð sem gott er að kynna sér. Hins vegar er alltaf reynt að leita bestu lausnar fyrir hverja konu, ekki síst þegar erfiðleikar hafa komið upp í fyrri fæðingu/fæðingum. Er þá reynt að hafa óskir og þarfir konunnar og maka hennar að leiðarljósi. Ég vil líka benda þér á möguleikann að fá viðtal við ljósmóður og ræða fyrri fæðingarreynslu, en á LSH er boðið upp á slíka þjónustu og kallast hún „Ljáðu mér eyra“. Slík viðtöl eru ágætur undirbúningur fyrir næstu meðgöngu og fæðingu.

Bestu kveðjur Björg Sigurðardóttir, Ljósmóðir.
Yfirfarið í janúar 2020

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.