Spurt og svarað

26. desember 2013

Fyrri meðganga og fæðing og svo næsta!

Sælar og takk fyrir góðan vef!
Ég eignaðist mitt fyrsta barn fyrir að verða 2 árum og nú erum við farin að tala um að fara að eignast annað! En það eru nokkur atriði sem ég hef verið að velta fyrir mér varðandi síðustu meðgöngu/fæðingu og svo næstu meðgöngu/fæðingu. Ég slitnaði heilmikið á meðgöngunni og þá sérstaklega undir lokin og mér fannst það alveg ægilega erfitt og eiginlega hundfúlt því við bárum alltaf krem á bumbuna, krem sem átti að virka rosalega vel á svona bumbur! Á ég þá eftir að halda áfram að slitna á næstu meðgöngu? Svo rifnaði ég í fæðingunni, ég veit ekki nákvæmlega hversu mikið ég rifnaði því samkvæmt skýrslunni hefði læknir þurft að sauma þegar rifnar svona mikið en ljósmóðirin saumaði sjálf, sauma þær ekki bara ef þetta er e-ð lítið? Hverjar eru þá líkurnar á að ég rifni aftur í næstu fæðingu? Svo var fylgjan föst og ljósmóðirin reyndi að toga hana út en á endanum kom önnur (sem var held ég ekki ljósmóðir) og hjálpaði til og á endanum náðu þær henni. Fylgjan var tætt og þær voru ekki alveg vissar um að þær hefðu náð henni allri, en á næstu dögum kom í ljós að hún hefði öll skilað sér. Þetta var virkilega leiðinleg upplifun - bæði fyrir mig og manninn minn. Af hverju losnar fylgjan ekki og er þá líklegt að þetta gerist aftur í næstu fæðingu?

Sæl

Takk fyrir fyrirspurnina! Varðandi slit þá er því miður ekkert krem eða olía sem getur komið í veg fyrir slit í húð á maga, lærum og brjóstum á meðgöngu. Það er mjög mismunandi hvað konur slitna mikið eða hvort þær slitna yfirleitt. Hér á síðunni eru margar fyrirspurnir og svör við spurningum um slit á meðgöngu.

Varðandi rifur í fæðingu og hver saumar er það alltaf metið af tveim aðilum. Ljósmóðir sem tekur á móti barninu og önnur ljósmóðir eða læknir. Ljósmæður sauma flestar rifur sjálfar en í sumum tilfellum sauma læknar. Mig langar að benda þér á að setja „rifur“ í leitina í spurt og svarað þar sem koma fram vangaveltur um rifur.

Nú kemur ekki fram í fyrirspurninni þinni hve langur tími leið frá því barnið fæddist þar til fylgjan fæddist þannig að ég velti fyrir mér hvort hún hafi verið föst eða hvort hún hafi bara aðeins látið bíða eftir sér. Í rannsóknum kemur fram að 90% af fylgjum eru fæddar innan 15 mínútna frá fæðingu barnsins og 97% fæddar eftir 30 mínútur. Oftast er ekki talað um fasta fylgju fyrr en eftir 60 mínútur. Ef ekki blæðir neitt að ráði er í lagi að bíða róleg eftir fylgjunni en ef það blæðir viljum við að fylgjan fæðist fljótt og eru þá notaðar leiðir til þess að hún skili sér sem fyrst eða hún sótt af fæðingarlækni. Ljósmóðir sem tekur á móti barni skoðar fylgjuna vel og metur hvort hún hafi skilað sér öll eða ekki, það á ekki að vera neitt vafamál. Helstu áhættuþættir fyrir fastri fylgju eru fyrirburafæðing og ef konan hefur áður haft fasta fylgju.

Mér þykir leitt að þið hafið leiðinlega upplifun af fæðingu barnsins ykkar, ég held að það gæti hjálpað ykkur að fara yfir skýrsluna með ljósmóður í mæðravernd þegar það kemur að því að þú farir í mæðraskoðun á næstu meðgöngu. Ef til vill getur hún skýrt atriði sem eru óljós eins og fylgjufæðinguna og rifuna.
Gangi þér vel.


Með bestu kveðju, Signý Dóra Harðardóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
Yfirfarið í janúar 2020
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.