Spurt og svarað

30. desember 2004

Getur þetta verið fræðilegur möguleiki?

Ég er eiginlega með hálf fáránlega spurningu og hún á líklega ekki heima hér en það verður að hafa það, þið hér vitið greinilega svo margt. Hef aldrei skrifað hérna en ákvað að gera það núna.

Við kærastinn minn notuðum smokk fyrir nokkrum mánuðum þar sem ég var hætt á pillunni. Við erum ekki vön þessum smokkabransa þar sem ég hef alltaf verið að pillunni. En núna erum við í barnahugleiðingum og ákváðum bara að "láta það gerast ef það vill gerast". En allaveganna við notuðum smokk þarna fyrir löngu þar sem við vorum ekki alveg tilbúin í getnað þá, en ég samt hætt á pillunni. En þar sem við erum soddan aular í smokkamálunum þá tókst einhvernvegin gúmmíhringnum sem er neðst og á að halda smokknum að rifna frá. Við föttuðum það eftirá þegar kærastinn minn fór á klósettið. Sumsé bæði smokkurinn og hringurinn höfðu farið af í samförum. Smokkurinn fannst í rúminu en gúmmíhringurinn af smokknum var hvergi sjáanlegur. Við fundum hann hvergi! Kærastinn minn sagðist nokkuð viss um að hringurinn hefði ekki lent í klósettinu þegar hann fór þangað. Ég fór reyndar líka á klósettið en varð ekki vör við gúmmíhringinn. Þá datt mér í hug að í samförunum hefði hringurinn farið alveg efst í leggöngin og væri bara enn þar. En það skilaði sér aldrei neinn gúmmíhringur út aftur ef hann fór þá þangað upp til að byrja með.

Svo líða nokkrir mánuðir og ég verð ólétt en lendi svo í því að missa fóstrið þegar ég var komin stutt á leið u.þ.b. 6 vikur. Og hér kemur spurning mín. Er einhver möguleiki á því að svona lítill gúmmíhringur af smokk gæti á einhvern fræðilegan hátt hafa farið gegnum leghálsinn og upp í legið og sitji þar enn og jafnvel valdið fósturlátinu? Ef það hefur gerst ætti ég þá ekki að hafa orðið vör við það? t.d. fengið sýkingu eða eitthvað í kjölfarið? Þessir gúmmíhringir af smokkum eru ekki stórir og afar sveigjanlegir. Er möguleiki að hann hafi farið þarna upp? Þetta var nefnilega einungis sjálfur hringurinn sem týndist, afgangurinn af smokknum fannst.

Ég er búin að vera með reglulegar blæðingar og egglos. Þegar ég missti fóstrið þá blæddi vel. En er þetta möguleiki?

Með von um hjálp!

Ein ráðvillt.

Sæl vertu og takk fyrir fyrirspurnina.

Ég er fegin að þú spurðir þó þér kannski finnist spurningarnar þínar fáránlegar því ég vona að ég geti sannfært þig um að hafa ekki frekari áhyggjur. Ég á mjög bágt með að trúa að svona gúmmíhringur, þó litill og sveigjanlegur sé, geti komist í gegnum leghálsinn og upp í leg. Það er kannski fræðilegur möguleiki að hægt sé að troða honum þangað með verkfærum, krafti og mikilli lagni en að það hafi gerst svona óvart held ég að sé útilokað og þannig sé ekki möguleiki á að þetta hafi valdið fósturlátinu. Gangi þér vel í framtíðinni.

Bestu kveðjur, Inga Vala Jónsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
Yfirfarið í desember 2019

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.